150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

samvinna um aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar.

[11:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þann góða tón sem hv. þingmaður slær hér varðandi viðbrögð og samstarf um mikilvægar lausnir á aðsteðjandi vanda. Við höfum þurft að vinna dag og nótt undanfarnar tvær vikur í raun og veru til að fylgjast með þróuninni frá degi til dags og leggja mat á raunhæfar aðgerðir til að bregðast við. Það eru nokkrir hlutir sem standa upp úr. Það er gríðarlegt tekjufall í einkageiranum sem auðvitað mun brjótast fram í tekjufalli hjá ríkinu og hinu opinbera sömuleiðis. Við erum komin hingað inn í þingið með mál og ég tek undir með hv. þingmanni að vel hefur tekist til í góðu samstarfi allra flokka í viðkomandi nefndum sem hafa fengið þau mál til umfjöllunar. Frestun á gjalddögum skiptir líka miklu máli í upphafi þessarar viku.

Ég sé þetta í grófum dráttum þannig fyrir mér að þær aðgerðir sem stjórnvöld munu kynna, sem ríkisstjórnin mun vilja leggja fyrir þingið, séu í öllum meginatriðum nokkuð fyrirsjáanlegar: Við þurfum að bregðast við vegna tekjufallsins. Við þurfum að huga að atvinnuöryggi fólks. Við þurfum að huga að því að þegar fyrirtæki tapa lausu fé þarf að vera til eitthvert fjármagn til að brúa tímabilið sem við vonumst til að verði sem styst. Og sömuleiðis er strax orðið tímabært, já, að fara að huga að því hvernig við fáum viðspyrnuna. Það verður reyndar viðvarandi verkefni sem verður ekki leyst á næstu sólarhringum en við eigum að byrja það samtal. Þannig að í grófum dráttum myndi ég vilja leggja fram þá sýn mína á þetta að þetta samtal geti mjög vel farið fram í gegnum þinglega meðferð málanna.