150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

samvinna um aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar.

[11:10]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir hreinskilið svar. Það eru viss vonbrigði því að ég er á þeirri skoðun að þeim mun fyrr sem stjórnarandstaðan fær að koma að hlutunum og leggja sitt í púkkið, þeim mun betri og breiðari sátt náum við og þeim mun líklegra er að við munum eftir öllum hópum samfélagsins. Við erum talsmenn ólíkra hópa og hugsjóna.

Þetta snýst nefnilega hvorki um hæstv. fjármálaráðherra, hv. þm. Bjarna Benediktsson, eða Loga Einarsson. Þetta snýst um fólkið í landinu og í ljósi þess held ég að það sé gríðarlega mikilvægt að við fáum að koma og leggja í púkkið en eigum ekki bara að taka við og bregðast við. Að því sögðu heiti ég því að Samfylkingin mun samt sem áður leggja allt sem hún getur í að vinna málefnalega og í samstarfi við aðra flokka um að ná ásættanlegri lausn á þessu vandamáli.