150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

samvinna um aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar.

[11:12]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram af þessu tilefni að það ástand sem hefur skapast hér á undanförnum sólarhringum leggur þær skyldur á herðar ríkisstjórninni að færa fram hugmyndir að viðbrögðum. Ég hygg að þegar fyrstu viðbrögð verða orðin skýrari þá skapist aðeins betra svigrúm, bæði í þinglegri meðferð þeirra mála en ekki síður vegna næstu skrefa sem verða óhjákvæmileg, til þess mögulega að dýpka þetta samtal eitthvað. Ég lýsi mig alveg opinn fyrir því að ná að mynda breiða samstöðu um meginlínur viðbragða stjórnvalda. Ég held að það sé löng leið fram undan. Það er ekki gott að spá fyrir um það nákvæmlega en við höfum ekki séð í botninn á þessari krísu. Við gerum það vonandi á þessu ári og það verða mörg mál sem eiga eftir að koma hér til umræðu (Forseti hringir.) milli flokka, bæði á þinginu og mögulega áður en mál koma til þingsins.