150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

verðtryggð lán heimilanna.

[11:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég vil taka undir það að eins og skátarnir verðum við ávallt að vera viðbúin. Ég vil líka benda honum á að þeir sem eru með verðtryggð lán eru yfirleitt þeir sem hafa það verst, greiðslubyrðin gerir það að verkum að þeir sem eru með lægstu launin og standa verst í þessu samfélagi taka yfirleitt slík lán.

Á sama tíma langar mig líka að spyrja hann hvort hann muni ekki styðja hæstv. félags- og barnamálaráðherra í því að styrkja Mæðrastyrksnefnd, Fjölskylduhjálp Íslands og Hjálparstarf kirkjunnar til að þar sé hægt að halda úthlutunum áfram og einnig að sjá til þess að eitthvað verði gert í sambandi við Tryggingastofnun ríkisins fyrir þá sem eru í þeirri aðstöðu í dag að eiga ekki fyrir hreinlætisklútum, ekki fyrir spritti, ekki fyrir mat, ekki fyrir lyfjum og eru í einangrun. Þetta er auðvitað skelfileg staða og því miður er fólk komið í þessa stöðu og þetta verður ekkert betra. Þarna þarf einhverja fjármuni til að tryggja að þetta fólk sitji ekki eftir.