150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

gjaldþrotalög og greiðslustöðvun.

[11:25]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Það kom kannski ekki beint fram spurning í seinni ræðu hv. þingmanns en við erum bara að meta alla hópa í þessu ferli og munum halda því áfram eftir því sem fram líður, hversu mikil áhrif þetta hefur, hversu langt þetta ástand verður. Við erum saman í því verkefni og einstök mál sem varða greiðslustöðvun ráðast af mati á hverju máli fyrir sig, er eitthvað sem við munum skoða ef til þess kemur. Eins og hv. þingmaður segir mun þetta hafa áhrif á stóra og mjög fjölbreytta hópa í samfélaginu með mismunandi hætti. Það sem við reynum að gera er að vernda þá og átta okkur á því hvar er þörf á að við stígum inn í, hvar er þörf á lagabreytingum, hvar er þörf á meiri hjálp en minni og hvar við þurfum kannski ekki að breyta reglum. Þetta er eitt af þeim fjölmörgu atriðum sem munu koma upp og ég er viss um að hv. þingmaður mun standa með okkur að þeim breytingum sem þarfar þykja hverju sinni.