150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

kjarasamningar við hjúkrunarfræðinga.

[11:26]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Hjúkrunarstarfsfólkið okkar er í framlínunni við að minnka mannlegan og fjárhagslegan harmleik kórónufaraldursins. Á tíma sem heilbrigðisstarfsfólkið okkar er langmikilvægasta starfsfólk landsins segir Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga okkur frá enn einum árangurslausum samningafundi við samninganefnd fjármálaráðherra.

Fjármálaráðherra segir: Kórónufaraldurinn mun kosta okkur yfir 100 milljarða. Ég spyr því fjármálaráðherra hvað það kostar marga milljarða ef hann klárar samningana við hjúkrunarfræðinga í dag? Kostar það minna en 4 milljarða? Eftir fyrsta læknaverkfall sögunnar á Íslandi gerði ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar loks samninga við lækna 2015 sem kostuðu 4 milljarða, en svo settu þeir lögbann á verkfall hjúkrunarfræðinga þó að það kosti það sama og samningar við lækna. Samt eru hjúkrunarfræðingar tvöfalt fleiri.

Þeir settu lögbann á verkfall hjúkrunarfræðinga þó að landlæknir segði það skammtímalausn, þó að það myndi valda skorti á hjúkrunarfræðingum. Það er skortur á hjúkrunarfræðingum. Starfsskilyrðin eru svo slæm að margir menntaðir hjúkrunarfræðingar starfa ekki sem hjúkrunarfræðingar.

Ég ætla að biðja landsmenn að horfa á fjármálaráðherrann okkar. Hann fór með okkar vald til að semja við hjúkrunarfræðinga 2015 en samþykkti frekar lögbann á verkfall þeirra. Hann fer með okkar vald til að semja við hjúkrunarfræðinga í dag. Batnandi mönnum er best að lifa og næsti samningafundur er kl. 13 í dag. Ég ætla að biðja landsmenn að hlusta vel á fjármálaráðherrann okkar. Ég vil geta treyst honum í þessu máli.

Hvað kostar það að klára samninga við hjúkrunarfræðinga í dag eða um helgina?