150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

kjarasamningar við hjúkrunarfræðinga.

[11:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það hefur tekið langan tíma fyrir samninganefndir að ná niðurstöðu í fjölda samninga á undanförnu ári, myndi ég vilja segja, tæpu ári. Ríkið hefur samið við fjöldann allan af stéttum, það gerði stóra samninga fyrir stuttu og það er mjög miður að ekki skuli hafa tekist samningar við hjúkrunarfólk. Af hálfu ríkisins er lögð áhersla á að það sé innbyrðis samræmi í samningagerð með auðvitað breytilegri útfærslu gagnvart einstaka stéttum. Við vonumst til að ná samningum við hjúkrunarfólk sem fyrst. Það var mjög miður að Alþingi, ekki fjármálaráðherrann heldur Alþingi, hafi þurft að samþykkja lögbann á síðasta verkfall með þeim rökum sem þar var teflt fram sem lutu að öryggi heilbrigðisþjónustu í landinu.

Niðurstaða gerðardóms í því máli var reyndar mjög nálægt kröfugerð hjúkrunarfræðinga en það breytir því ekki að það voru vonbrigði að sú leið skyldi verða niðurstaðan. Þegar hv. þingmaður spyr um kostnað við það ástand sem er uppi núna og vísar í 100 milljarða töluna vil ég bara ítreka enn og aftur það sem ég hef sagt í þessum sal, ég hef eingöngu sagt að það væri augljóst að halli ríkissjóðs færi yfir 100 milljarða og vel það. Ég hef engu spáð um það hvar hallinn endar og mér finnst í raun og veru alveg ómögulegt að setja samninga við hjúkrunarfræðinga í eitthvert samhengi við hallann á þessu ári eða samninga við lækna frá því fyrir nokkrum árum. Við erum að semja innan ákveðins svigrúms sem við teljum að hafi verið mótað af lífskjarasamningunum og öðrum samningum við aðra opinbera starfsmenn. Innan þess ramma hefur samningsumboð samninganefndar ríkisins verið. Með því að fara út fyrir það umboð kunna menn að vera að rjúfa forsendur annarra samninga og það þarf að hefja samningaviðræður við aðrar stéttir upp á nýtt.