150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

kjarasamningar við hjúkrunarfræðinga.

[11:31]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Það eru breyttir tímar. Hæstv. fjármálaráðherra bendir ítrekað á að frá degi til dags séu breyttar forsendur. Það er búið að lýsa yfir neyðarástandi almannavarna frá því að lífskjarasamningarnir voru samþykktir. Það þýðir að það hlýtur að vera hægt að víkja frá þessu innra samvirði til að senda skýr skilaboð út í samfélagið um að við ætlum ekki að skilja hjúkrunarstarfsfólkið okkar eftir með ókláraða samninga miðað við núverandi ástand. Starfsskilyrðin voru bara svo léleg hjá hjúkrunarstarfsfólki á bestu tímum, áður en faraldurinn skall á, að margir hjúkrunarfræðingar sem voru búnir að mennta sig sem slíkir — það er ekkert djók að mennta sig sem hjúkrunarfræðingur, það er langt, erfitt og dýrt nám — störfuðu ekki sem hjúkrunarfræðingar. Við hljótum að sjá að það verður að bregðast öðruvísi við. Ég trúi ekki öðru en að allir landsmenn myndu styðja hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) í því að klára þessa samninga sem fyrst og ekki festa sig í innra samvirði.

Ég fékk ekki svar við spurningunni en ég verð að fá það. Það kostaði 4 milljarða að klára samninga við lækna. Hvað kostar að ganga að þeim kröfum sem hjúkrunarfræðingar hafa gert í dag? Hvað kostar það? Við verðum að fá að vita það.