150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

heimsfaraldurinn og viðbrögð við honum.

[11:34]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Það sem er kannski fallegast við þetta litla samfélag okkar er sú samstaða sem skapast á tímum sem þessum þar sem allir taka höndum saman, eins og við gerum öll núna, og hjálpast að við að lágmarka dreifingu veirunnar, lágmarka heilsufarslegan skaða af þeirri vá sem við erum að glíma við. Maður finnur svo vel að þrátt fyrir alla þá óvissu og þann ótta sem er í samfélaginu stendur þjóðin saman sem einn maður. Það skiptir miklu máli og við finnum líka að það er krafa til þess að við sem hér störfum stöndum líka saman sem einn maður í viðbrögðum, bæði hvað varðar hina miklu heilsufarslegu vá en ekki síður hvað varðar hina miklu efnahagslegu vá sem við erum að glíma við. Hún verður umtalsverð, þetta verður mikið högg til skamms tíma litið en það mun líka fylgja okkur eitthvað áfram. Okkar bíða bæði brýn verkefni í bráð en líka í lengd. Það er gott að hafa í huga og þess vegna er svo mikilvægt að við séum raunverulega að starfa saman, að meiri hlutinn, sem á endanum stýrir talsvert för um að hve miklu leyti hann hefur minni hlutann með í ráðum, upplýsi minni hlutann um þær sviðsmyndir sem verið er að vinna með og af hverju gripið er til þessara aðgerða en ekki einhverra annarra.

Ég brýni því hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórn til að efla samráðið til muna. Það hefur ekki verið til neinnar fyrirmyndar, sérstaklega ekki varðandi þær efnahagsaðgerðir sem við vitum að eru handan við hornið til kynningar en höfum ekki fengið að sjá neitt innan í. Það er ágætt að hafa það í huga. Við skulum draga lærdóm af því sem gerðist í hruninu þar sem einmitt þessi sama samstaða breyttist því miður í mikla reiði. Við vitum að af þessum áskorunum verður tjón. (Forseti hringir.) Fólk mun verða fyrir miklum missi og skaða og af því getur hlotist mikil reiði. Við þurfum öll sem hér störfum að vinna saman að því að koma í veg fyrir að slíkt fari úr böndunum.