150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

heimsfaraldurinn og viðbrögð við honum.

[11:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil aftur þakka fyrir þennan tón sem ég heyri í þinginu um viljann til samstöðu um stórar og mögulega erfiðar ákvarðanir. Ég heyri það sem sagt er, að menn hefðu viljað hafa samráðið dýpra á undanförnum dögum. Ég get eiginlega ekki annað sagt við því en að í ráðuneytum, eins og t.d. í mínu ráðuneyti, hefur þurft að leggja nótt við nýtan dag til að ná einfaldlega utan um stöðuna, leggja mat á hana og safna saman í tillögugerð. Meira að segja hefur verið algjört lágmarkssamráð innan stjórnarinnar og á ríkisstjórnarfundi sem stóð í morgun voru margir ráðherrar að sjá í fyrsta skipti útfærslur að hugmyndum og ríkisstjórnin að fá tækifæri til að ræða innbyrðis.

Ég er allur af vilja gerður til að eiga það samstarf sem kallað er eftir en þegar Stjórnarráðið er að störfum eins og á við þessa dagana, þar sem mér bárust tölvupóstar með upplýsingum kl. 2.30 í nótt og það er unnið hreinlega allan sólarhringinn, er það viss áskorun. Ég vonast til þess að eftir að við komum samtalinu af stað um fyrstu tillögur ríkisstjórnarinnar sem fylgja í kjölfar málanna sem þegar hafa komið fram skapist aðeins meira svigrúm til að sjá a.m.k. nokkrar vikur fram í tímann. En við erum núna í algjöru bráðaástandi þar sem er sterkt ákall um viðbrögð og við þurfum að bregðast við því.

Ég vil bara taka fram, af því að fyrr í morgun undir liðnum um störf þingsins var talað um að mikilvægi þess að stjórnarandstaðan fengi kynningu á málum áður en þau yrðu gerð opinber, að ég get staðfest að það stendur til að setjast niður með stjórnarandstöðunni áður en tillögur verða gerðar opinberar.