150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

heimsfaraldurinn og viðbrögð við honum.

[11:38]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þetta svar og fagna því að það standi til. Ég hef fullan skilning á því að þetta eru fordæmalausar aðstæður og fordæmalausar ráðstafanir sem við þurfum að grípa til í ríkisfjármálum, fordómalausar vonandi líka svo að slegið sé á létta strengi með það.

Það er mikilvægt að við séum öll með sömu myndina fyrir framan okkur þegar við tökumst á við þetta af því að öll höfum við sama verkefnið, að tryggja að þær aðgerðir sem gripið er til hér gagnist sem best, komi í veg fyrir sem mest tjón og lágmarki skaðann sem af þessu ástandi kann að hljótast. Við sáum það í góðu starfi velferðarnefndar með þau mál sem við erum að fara að ræða hér á eftir að þetta samstarf getur verið bæði mjög gott og mjög gagnlegt. Ég vona svo sannarlega að það muni einkenna samstarf minni hluta og meiri hluta í gegnum þessar aðgerðir bæði í bráð og lengd af því að öll höfum við það sama markmið að tryggja að þjóðin komi sem sterkust út úr þessari stöðu.