150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[12:02]
Horfa

Frsm. velfn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Það var farið vel yfir þessa hluti með þeim gestum sem við fengum í gegnum fjarfundabúnað þingsins. Vissulega komu upp ýmis tilfelli sem erfitt mun reynast að klæðskerasauma aðgerðir í kringum en þarna er úrræði fyrir sjálfstætt starfandi atvinnurekendur sem eru með fyrirtæki og sjá núna fram á ekki nein verkefni. Þeir geta fengið atvinnuleysisbætur. Hafi þeir greitt reiknað endurgjald og verið í rekstri geta þeir sinnt einstökum verkefnum innan mánaðarins og farið á atvinnuleysisbætur þess á milli. Ég tel að sjálfstætt starfandi atvinnurekendum sem hafa verið í einhverjum rekstri síðustu þrjá mánuði sé ágætlega mætt í þessu frumvarpi.

Ég held að ekki sé gerlegt að fara neðar en 25%. Þá er starfsemin orðin eiginlega engin. Með því að færa hlutfallið niður í 25% erum við að grípa þó nokkuð margt fólk í hlutastörfum sem skiptir miklu máli að ná utan um. Það er t.d. verið að mæta því fólki sem hefur unnið með skóla og fólki sem er í hlutastörfum á kannski fleiri en einum stað.

Varðandi fólk sem er á atvinnuleysisbótum núna og sér fram á að réttur þess til atvinnuleysisbóta sé að klárast hef ég ekki fengið upplýsingar um að staðan sé þannig hjá mörgum. Það kom ekki fram í máli Vinnumálastofnunar. Ef slíkt er að tel ég (Forseti hringir.) að bregðast þurfi við því hjá Vinnumálastofnun og stjórnvöldum.