150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[12:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Við vitum um fyrirtæki sem hafa verið með 30–40 manns í vinnu en horfa fram á engar tekjur næstu mánuði, þá er ég að meina núll tekjur, vegna þess að þessi veira er búin að kippa fótunum undan fyrirtækjum. Ástandið gerir það. Engir ferðamenn eru að koma, enginn að kaupa ferðir og enginn að kaupa þjónustu. Fyrir þessi fyrirtæki er í sjálfu sér kannski ekki annað val en að hætta starfsemi og loka, segja öllum upp, vegna þess að þau geta ekki einu sinni borgað þessi 25% sem þau eiga að greiða.

Það er gott að heyra að við hv. þingmaður erum sammála um að það þurfi að taka á þeim augljósu atriðum sem koma upp varðandi þá sem eru mögulega að detta út af atvinnuleysisbótum. Hins vegar eigum við einn hóp eftir, foreldra sem eru heima hjá börnum vegna þess að skólarnir hafi ákveðið að skipta skóladeginum eða skólavikunni. Þá þarf fólk að vera heima og taka sér annaðhvort veikindaleyfi (Forseti hringir.) eða nýta orlofið sitt. Hefur verið skoðað að koma til móts við þessa aðila sérstaklega?