150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[12:06]
Horfa

Frsm. velfn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi síðara atriðið sem hv. þingmaður nefndi á það frekar við það frumvarp sem verður mælt fyrir á eftir og komið er inn á þar. (GBS: Það er rétt.) Varðandi minni fyrirtæki eins og t.d. í ferðaþjónustu sem sjá fram á enga starfsemi næstu mánuði — tvo mánuði, þrjá mánuði, hver veit? — og eru kannski með 20–30 manns í vinnu skiptir auðvitað máli að ríkissjóður greiði 75% af launum þeirra starfsmanna til að halda ráðningarsambandi milli launamanns og viðkomandi fyrirtækis. Ef fyrirtæki sér fram á að það geti ekki búið við það blasir lítið annað við en gjaldþrot og uppsagnir. Viðkomandi launamenn fengju þá full laun samkvæmt sínum rétti til uppsagnarfrests sem væri dýrari kostur og verri. Þess vegna hef ég trú á að fyrirtæki reyni að feta þennan veg ef þau hafa ekki verið komin alveg (Forseti hringir.) fram á brún gjaldþrots þegar þetta ástand brast á.