150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[12:16]
Horfa

Frsm. velfn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Manni finnst næstum því eins og efnahagshrunið hafi gerst í gær þegar við stöndum núna frammi fyrir þeim áskorunum sem þessi veira krefst af öllum í samfélaginu að mæta með ýmsum hætti. Það kom þó út úr efnahagshruninu, þó að allt hafi verið með ósköpum og endemum, að ýmsar aðgerðir gögnuðust mjög vel eins og þær að bjóða upp á að hluti launafólks væri á bótum ef viðkomandi héldi ráðningarsamningi við atvinnurekanda, að lengja atvinnuleysistímabilið gagnvart því fólki sem var búið að vera lengst á atvinnuleysisskrá og bjóða fólki að vera á atvinnuleysisbótum og fara að mennta sig. Öll þessi úrræði gögnuðust mjög vel og núna getum við farið í þá verkfærakistu og nýtt hana mjög vel við þessar aðstæður og bætt um betur. Ég treysti því að við öll munum mæta þeim sem verst standa í samfélaginu (Forseti hringir.) við þessar aðstæður.