150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[12:35]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að við séum komin með þetta frumvarp til umræðu og vonandi lokaafgreiðslu fljótlega því að ég tel það vera einn af þeim grundvallarþáttum sem munu geta hjálpað meginþorra þeirra fyrirtækja sem verða fyrir miklum tekjubresti núna og eftirspurnarbresti á þessum óvenjulegu tímum sem við lifum á. Þetta er grundvallarmál í því að gefa þeim von um að geta dregið úr tekjuflæði frá sér vegna þess að tekjuflæðið til þeirra hafi stoppað og haldið sínum góðu fyrirtækjum sem skaffa heimilunum í landinu lífsviðurværi með störfum og launum. Það er gríðarlega mikilvægt. Ég held að málið eins og það er núna nái utan um meginþorrann eða stærsta hópinn. Við getum aldrei náð utan um alla hópa. Við erum búin að eiga miklar umræður um þetta í hv. velferðarnefnd og ég vil bara nýta tækifærið og þakka nefndinni allri og formanni hennar fyrir mjög góð störf og gott samstarf í þessu. Við náðum að fara yfir ótrúlega marga hluti á skömmum tíma með ótrúlega mörgum við erfiðar aðstæður.

Frumvarpið er búið að taka gríðarlegum breytingum. Ég held að þegar við horfum á lokaniðurstöðu frumvarpsins verðum við líka að líta til þess hvað við gerðum margar stórar og kostnaðarsamar breytingar á málinu. Við hlustuðum á margar athugasemdir og það getur vel verið að við höfum ekki náð að svara hverri einustu spurningu enda tel ég að svona mikilvæg grundvallaraðgerð þurfi að vera svolítið almenn og skýr þannig að hún nái markmiðum sínum sem best og sendi sem skýrust skilaboð. En svo vitum við það öll sem hér erum að það verða fleiri tilfelli og önnur sem við þurfum að bregðast við í annarri löggjöf eða í gegnum aðra sjóði eða fara aðrar leiðir. Þannig að þó að við höfum ekki náð að svara öllum áhyggjum fyrirtækja og fólks í þessu máli munum við vonandi fá tækifæri til að bregðast við flestum þeim á einhvern annan hátt, hvort sem það er í gegnum reglugerðarbreytingar, aðra lagasetningu eða breytingu á framkvæmd ýmissa þátta og öðru slíku. Það eru margir möguleikar í boði. Það að taka samtalið og fara yfir þetta skiptir miklu máli.

Ég hef líka fundið það við vinnslu þessa máls og frá því það kom fyrst fram að fyrirtækin bíða gríðarlega mikið eftir þessu. Þetta er mál sem hefur gert það að verkum að við erum ekki farin að heyra fréttir af miklum fjöldauppsögnum, sérstaklega í ferðaþjónustunni og afleiddum störfum ferðaþjónustunnar sem er nánast í öllu atvinnulífi íslensks samfélags. Þó að menn séu ekki beint að vinna í ferðaþjónustu eru þeir svo oft að vinna á margvíslegan hátt fyrir ferðaþjónustuna og svo eru áhrif samkomubanns náttúrlega farin að breiðast út þannig að alltaf eru fleiri og fleiri sem geta nýtt sér þetta, sjá fram á vandamál en sjá hér lausn sem getur hjálpað þeim að standa af sér mesta skaflinn. En við vitum það öllsömul að við þurfum að takast saman á við þetta verkefni. Þetta er sameiginlegt mál. Það munu allir þurfa að taka eitthvað á sig. Það sem við erum að reyna að gera hér er að láta þann skell sem hver og einn þarf að taka á sig ekki verða óyfirstíganlegan, hvort sem það eru heimilin, fyrirtækin, ríkissjóður eða hver það er.

Ég fagna þeim breytingum sem við höfum gert á frumvarpinu. Þær hafa komið skýrt fram í dag en ég ætla samt að fara örstutt yfir helstu breytingarnar. Þegar eftirspurnin minnkar svona rosalega hratt, fer eiginlega bara niður í núll, var gríðarlega mikilvægt að geta breytt málinu þannig að það megi lækka starfshlutfall niður í 25%, við breyttum úr 50% í 25. Ég held að það skipti gríðarlega miklu máli. Þetta er stór breyting og breytir kostnaðarmatinu mikið en ég held að þetta sé eitt af grundvallaratriðum til að málið nái markmiðum sínum. Ég geri mér grein fyrir því að þetta getur aftur á móti sett millitekjuhópana, millistéttina og meðallaunamann í landinu, í aðeins verri stöðu. Þess vegna var mikilvægt að gera samhliða þá breytingu að hækka hámark greiðslna sem hægt er að fá úr Atvinnuleysistryggingasjóði samanlagt úr 80% upp í 90%. Með þeirri breytingu drögum við úr áhrifunum á launafólkið og það er gríðarlega mikilvægt að þetta sé 10% skerðing af heildarlaunum í staðinn fyrir 20%.

Ég get tekið undir það sem hefur komið fram hér að 700.000 kr. hámarkið er enn ein, getum við sagt, girðingin í málinu til að stilla af kostnaðinn og hvernig þetta á að nýtast. En það skiptir töluverðu máli því að bæði með því að lækka skerðinguna úr 20% niður í 10%, breyta hámarkinu úr 80 í 90% og hækka greiðslur úr 650.000 kr. í 700.000 kr. náum við samt að teygja okkur töluvert lengra og upp fyrir meðallaun í landinu, með áhrifin af þessu og vel upp fyrir það. Þeir sem eru með rúmlega 900.000 kr. í laun, ef við tökum áhrif af tekjuskatti og öðru, fá hlutfallslega meiri skerðingu en 10%, af því sem er þar fyrir ofan.

Það er alltaf hægt að ganga lengra en eins og ég sagði áðan þá gerðum við margar róttækar breytingar sem skipta miklu máli. Þær munu gera það að verkum núna að fyrirtækin eru farin að stilla upp á fullu sviðsmyndum sínum þannig að þetta mun draga verulega úr uppsögnum og óvissu hjá starfsfólki um einhvern tíma. Því held ég að þetta sé ásættanleg niðurstaða. Það hefði vissulega verið freistandi að hækka hámarkið um meira en 700.000 kr., eða jafnvel taka þær út og notast við hámarkið úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem er rúmar 456.000 kr., fullar atvinnuleysisbætur. 50% af því er 228.202 kr. Það var vissulega eitt af því sem var skoðað. En það þurfti að forgangsraða þeim breytingum sem var hægt að gera og þetta var sameiginleg niðurstaða nefndarinnar. Allra viðkvæmustu hóparnir eru varðir með því að setja 400.000 kr. gólfið og það er mikilvægt. En við vitum alveg að þetta mun líka verða erfitt fyrir millitekjuhópa og hærri af því að þeir eru með margar skuldbindingar á bak við sig, í námslánum og eru væntanlega með þessi laun búnir að koma sér upp fjölskyldubíl og slíku. Við þurfum þá bara að skoða hvort sá hópur er að fara að lenda eitthvað verr í þessu en hinir og hafa það í huga í frekari aðgerðum. En ég held að með því að halda þessari aðgerð almennri og ná einnig að gera þessar grundvallarbreytingar séum við með góða niðurstöðu.

Ég vil líka aðeins koma inn á gildistíma frumvarpsins. Hann er til 1. júní eftir breytingar nefndarinnar. Í ljósi aðstæðna held ég að það hafi verið rétt að hafa hann ekki lengri því að vissulega eru fyrirtækin að skuldbinda sig til lengra ráðningarsambands með þessu, með því að greiða hluta af laununum í ákveðinn tíma.

Það er gríðarlega mikilvægt það sem stendur í nefndaráliti með frumvarpinu að við þurfum að meta stöðuna í maí. Hvernig hafa mál þróast? Hvernig er staðan almennt hjá fyrirtækjunum? Þá getum við framlengt ákvæðið, við getum líka breytt ýmsu í því eins og t.d. hlutföllum og hámarki í launum og öðru slíku. Þá er hægt að bregðast við. Við þurfum að hafa það hvernig þessi leið virkar og hvernig hún gengur til stanslausrar endurskoðunar alveg frá því að hún tekur gildi. Og svo þurfum við bara að sjá hver staðan verður þegar líður að því að þetta renni út. Er möguleiki að framlengja ákvæðið eða breyta því eða er bara komin upp sú staða að það renni sitt skeið, atvinnulífið sé komið af stað aftur eða hafa einhverjar aðrar aðgerðir tekið við eða gripið fyrirtækin og heimilin? Þetta þurfum við að kanna.

Ég tel þetta vera mjög skýr og góð skilaboð sem Alþingi og stjórnvöld geta sent út í atvinnulífið og þar af leiðandi til heimilanna um það að við ætlum að aðstoða þau. Það má raunverulega segja að hér sé verið að endurgreiða tryggingagjaldið til þeirra fyrirtækja sem lenda í erfiðleikum út af þeirri stöðu sem er uppi. Aðgerðin er samt miðuð að því að hjálpa þeim sem þurfa á því að halda. Við erum að forgangsraða þannig. Það er hægt að fara í fleiri almennar aðgerðir, ég ætla ekki útiloka að það verði gert á einhverju stigi, ég veit það ekki, t.d. fella niður tryggingagjald og annað. Það er þá almenn aðgerð og nær líka til þeirra sem hafa kannski ekki orðið fyrir tekjumissi og öðru slíku. Það getur vel verið að maður geti verið sammála þeirri leið en við verðum að horfa á þetta út frá þeim aðstæðum sem við erum í núna. Við erum svolítið í viðbragðinu og björgunarstörfum núna og svo þurfum við bara að meta ástandið á hverjum tíma og hvaða aðgerð sé rétt á hverjum stað.

Ég tel við séum með mjög gott mál þar sem nefndin hefur komist að mjög farsælli niðurstöðu í samráði við ríkisstjórnina. Ég hlakka til að sjá hvort við náum ekki einhverjum af markmiðum okkar og helst sem flestum með því að samþykkja þetta frumvarp í dag.