150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[12:47]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir ræðuna. Mig langar til að spyrja þingmanninn út í það sem hann kom inn á, styttinguna á gildistíma frumvarpsins og það að nefndin, og ríkisstjórnin væntanlega, sér fyrir sér að gera breytingar eftir að áhrifin af frumvarpinu birtast og menn sjá hversu vel það nær markmiðum sínum. Hefur þingmaðurinn ekki áhyggjur af því að þá verði einmitt þessir hópar sem þakið fer hvað verst með í raun búnir að slíta ráðningarsambandi við sinn vinnuveitanda með uppsögn, á grundvelli þess að njóta fullra réttinda í þrjá mánuði? Hefði mögulega ekki verið skynsamlegt að ganga skrefinu lengra núna og geta þá bakkað eftir endurskoðun frumvarpsins síðar? Ég er hræddur um að áhrifin af því að ganga svona skammt hvað þakið varðar komi fram strax þannig að mönnum gefist ekki ráðrúm til að aðlaga frumvarpið og lausnina að þeirri stöðu sem þá kemur upp.