150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[12:49]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Forseti. Það getur vel verið að þá væri orðið of seint gagnvart vissum hópum en ég held að við séum komin þangað þar sem þetta er farið að hafa veruleg áhrif, komin það hátt í skalann. Það sem við erum að bregðast við hér eru mestmegnis þjónustufyrirtæki þannig að það er ekki mörg störf akkúrat núna sem eru hér undir. Það er vissulega einn og einn hópur þarna inni og þá er það svolítið fyrirtækjanna að meta hvort þau fari síður í uppsögn gagnvart þeim og hvernig þau gera það. Eins og ég kom inn á áðan erum við að reyna að bregðast við ástandinu núna og það eru fyrst og fremst þjónustustörfin sem eru hér undir. Með því að vera komin upp undir milljónina með lágmarksáhrif af þessari aðgerð á launamanninn þá tel ég að við séum að ná það stórum hópi að við getum vel við unað þó að ég geti alveg tekið undir það að hættan er fyrir hendi. En það eru margir aðrir slíkir hópar sem koma upp hér. Við ræddum námsmenn og við reynum að bregðast við því eins og við getum með þessu en margir námsmenn eru t.d. ekki með ráðningarsamband og falla því ekki hér undir og við gátum því ekki leyst það. Svo eru aðrir hópar sem eru kannski með starfshlutfall á tveimur stöðum eða eru í 40% starfshlutfalli og falla því ekki undir þetta. Það er hægt að tína til marga hópa og við verðum að sætta okkur við að við getum ekki leyst allt með þessu og fyrirtækin verða líka að vera svolítið framsækin við að finna lausn innan sinna raða með þetta til þess að þetta geti verið almennt, skýrt og virkað. Svo verða stjórnvöld að sjá hvort það séu stórir hópar sem falla hér utan við sem þarf að grípa á annan hátt.