150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[12:51]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni svarið. Ég vil auðvitað ekki vanþakka það sem vel er gert í þeim viðbrögðum sem nú er verið að undirbúa. Það er síður en svo markmiðið. En það verður líka að halda því til haga að það er ekki þannig að við séum með þessari reglubreytingu að komast upp undir milljónina í launum hvað lágmarksáhrif varðar. Áhrifin eru 100% eftir að 700.000 kr. markinu er náð. Hv. þingmaður kom inn á það í svari sínu, og þá gef ég mér að það sé á grundvelli gagna sem voru lögð fyrir velferðarnefnd, að þetta væru ekki mjög stórir hópar í fyrirtækjum sem væru að verða fyrir verulegum áhrifum, og því spyr ég: Er þá ekki enn frekar ástæða til þess að hleypa þeim inn í bráðaviðbrögðin og geta þá bakkað síðar ef menn telja að þetta hafi verið yfirskot? Ég held að það sé verulega áhættuminna að yfirskjóta en undirskjóta akkúrat núna. Svar velferðarráðuneytisins, sem ég kom inn á í ræðu minni á undan, sneri að því að ef þetta hefði áhrif á 20.000 samninga þá væri viðbótarkostnaðinum rétt um 2 milljarðar á líftíma þessa tiltekna regluverks. Ef þetta er miklu lægri tala en að þetta hafi áhrif á 20.000 samninga þá er það auðvitað bara jákvætt og ætti að gera það enn auðveldara að yfirskjóta, getum við sagt, gagnvart þessum tilteknu hópum til skamms tíma til að eiga auðveldara með að meta stöðuna hvað endanleg áhrif varðar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort fjöldinn sem þarna er undirliggjandi hafi verið skoðaður sérstaklega. Ef sú lína virðist liggja að þetta séu ekki stórir hópar telur hv. þingmaður þá ekki a.m.k. þess virði að velta vöngum yfir því að halda í þá minni, sérstaklega í ljósi þess að búið er að stytta líftíma frumvarpsins? Þá er hægt að stíga frá þeirri lausn miðað við þennan stytta tíma þegar hann er liðinn, jafnvel fyrr.