150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[12:56]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Það hefur gengið mikið á undanfarna daga og frá því fyrir helgi varðandi það mál sem við fjöllum um hér, frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa, vegna minnkaðs starfshlutfalls. Ég vil byrja á því að þakka þeim fjölmörgu aðilum sem hafa komið á fund nefndarinnar, á fjarfundi eðlilega, sem hafa miðlað sinni þekkingu og reynslu til okkar. Ég vil þakka öllu nefndarfólki sem hefur nótt og dag unnið mjög hratt og mikið til að þetta mál komist til afgreiðslu í þingsal. Ég vil þakka starfsfólki ráðuneytis, starfsfólki stofnana, Vinnumálastofnunar, ríkisskattstjóra og fleiri, en síðast en ekki síst vil ég þakka starfsfólki þingsins, starfsfólkinu á nefndasviði, sem hefur verið að vinna með okkur í þessu öllu, af því að það gleymist oft. Ég veit alveg að það eru margir að þakka núna og veitir ekki af að gera það. Það er mikið álag á starfsfólkinu hér innan húss, á nefndasviði og um allt kerfið. Það þarf að muna eftir því.

Það er líka vert að minna á að allir nefndarmenn í hv. velferðarnefnd standa saman að því nefndaráliti sem hér er verið að fjalla um og áheyrnarfulltrúi Viðreisnar, Hanna Katrín Friðriksson, er samþykk nefndarálitinu. Það voru tveir með fyrirvara en það var vegna smávægilegra þátta sem gerð var grein fyrir en allir studdu nefndarálitið og þær breytingar sem þetta mál hefur tekið eftir að það kom hingað til þingsins fyrir tæpri viku. Þetta mál, og það mál sem við fjöllum um á eftir, leit í byrjun út fyrir að vera lítið skref af mörgum sem tekin verða í framhaldinu og í viðbrögðum okkar og stjórnvalda við þessari veiru, en reyndist líklega vera stærsta einstaka aðgerð sem farið verður í varðandi vinnumarkaðinn. Maður heyrir það glöggt hjá aðilum vinnumarkaðarins að beðið er mjög eftir þessu.

Mig langar að koma inn á nokkra þætti. Eins og komið hefur fram er ekki hægt að gera allt fyrir alla. Þetta er ömurlegur frasi en það er samt þannig. Það er ómögulegt. Ég og við í velferðarnefnd lögðum sérstaka áherslu á að við myndum passa þá sem eru með lægstu launin. Þar voru fulltrúar ASÍ algjörlega sammála sem og fulltrúar BSRB og annarra sem horfðu á tölurnar, horfðu á 80% þakið sínum talnaglöggu augum og bentu okkur í velferðarnefnd á það hvernig dæmið myndi líta út fyrir þá sem væru með 400.000 kr. og lægra, hvernig 20% skerðingin kæmi út fyrir þann hóp. Okkur var alveg ljóst að það myndi ekki ganga fyrir lægstu launin.

Ég er ótrúlega ánægð með þá samstöðu í nefndinni að verja þennan hóp af því að það þarf að taka einhvern hóp út og þá er ég ánægð með að við skyldum verja þá sem eru með lægstu launin. Þeir sem eru með 400.000 eða lægra fá ekki 80% hlutfall af fyrri tekjum heldur halda þeim 100% og það verður ekki farið undir 400.000 kr. Í breytingartillögunni er þetta algjörlega skýrt. Við gerðum þessar breytingar. En auðvitað verður fyrir vikið höggið mest fyrir þá sem eru með hæstu launin. Það hefði alltaf verið högg fyrir þá sem eru með hæstu launin vegna þess að þakið á greiðslum frá Vinnumálastofnun, úr Atvinnuleysistryggingasjóði, er alltaf 450.000 kr. Þeir sem eru með hærri tekjur hefðu alltaf fengið eitthvert högg, það er óhjákvæmilegt. En að þessu sinni var a.m.k. farið í að verja sérstaklega þá tekjulægstu.

Það var mjög mikil umræða í nefndinni um sjálfstæða atvinnurekendur. Við breyttum því sem áður hafði komið fram um að það ætti bara að miða við skil launa síðustu þriggja mánaða, til hliðsjónar verður uppgjör á ársgrundvelli til að gera þetta meðaltal. Það getur verið að t.d. á síðustu fjórum vikum hafi orðið mikið högg, sérstaklega hjá þeim sem eru í ferðaþjónustunni af því að það fór að bera á afbókunum fyrir nokkrum vikum. Það skiptir því máli að horfa á 12 mánuði en ekki bara þrjá mánuði.

Sjálfstæðir atvinnurekendur eru þó í þeirri stöðu að uppsagnarfrestur er oft og tíðum ekki til staðar. Nú skal taka það fram að hér er um að ræða úrræði þannig að atvinnurekendur fari frekar í að semja við sína launamenn og starfsmenn um að fara í minnkað starfshlutfall í stað þess að grípa til uppsagna. Þetta er það sem við verðum að muna af því að við fengum í gær og fáum í dag og síðustu daga fjölmarga aðila sem segja: Staða mín er breytt. Ég var á verkefnatengdum launum þannig að ég fékk bara borgað eftir útkalli. Þannig er það á fjölmörgum veitingastöðum og mjög víða í ferðaþjónustunni. Leiðsögumaður fær t.d. bara borgað fyrir útkallið en er samt sem áður skilgreindur í föstu vinnusambandi. Við þessa einstaklinga vil ég nefna að ef öll verkefni falla niður og maður hefur ekki þann rétt að vera með einhvern uppsagnarfrest af því að það er ekki slíkt vinnusamband, þá fara þeir einstaklingar einfaldlega á atvinnuleysisskrá. Það er því miður raunin. En með þessu úrræði sem er verið að búa til hér er verið að fækka þeim aðilum sem fara beint af öllu afli, í öllu sínu veldi, inn á atvinnuleysisskrá. Það er verið að búa til það kerfi að vinnusamband milli starfsmanns og fyrirtækis haldist en starfshlutfallið sé minnkað og Atvinnuleysistryggingasjóður grípi þann hluta sem starfsmaðurinn missir. Þeir sem hafa enga vinnu, þeir sem munu ekki vera með 25% eða meira, fara einfaldlega á atvinnuleysisskrá.

Nú er það svo að þeir sem eru launamenn með sinn uppsagnarfrest eiga að fullnýta uppsagnarfrestinn áður en þeir geta farið á atvinnuleysisskrá. Þess vegna verður þetta flækjustig. Maður á ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en maður hefur klárað uppsagnarfrestinn. Það er verið að vinna frumvarpið með þessum hætti vegna þess að það er fjöldi fyrirtækja úti í samfélaginu sem hefur orðið fyrir svo miklu höggi af því að það koma engar tekjur inn að þau geta einfaldlega ekki borgað uppsagnarfrestinn. Þetta er flókið. Ég held að þetta sé sérstaklega flókið fyrir þann sem var t.d. að kveikja á sjónvarpinu eða Alþingisrásinni núna og er að reyna að átta sig á út á hvað þetta gengur. En við þurfum að vera dugleg, við og stjórnvöld og stofnanir, Vinnumálastofnun, og auðvitað stéttarfélögin og launþegahreyfingin, að útskýra fyrir fólki muninn á þessu úrræði annars vegar og hins vegar því úrræði að ef fyrirtækið verður gjaldþrota fer maður beint á atvinnuleysisskrá. Ef fyrirtæki lokar, ef fyrirtæki ætlar bara að segja upp starfsfólki sínu þá á það rétt á uppsagnarfresti og sá réttur verður ekki af starfsfólki tekinn. Hann er til staðar. Það er bara þegar fyrirtæki fara í gjaldþrot sem starfsfólk getur farið beina leið á atvinnuleysisbætur. Launafólk sem er í verkefnatengdu launasambandi þarf að skoða hvort einhver uppsagnarfrestur er til staðar eða hvort viðkomandi fari beint á atvinnuleysisbætur af því að það eru engin verkefni.

Í meðförum nefndarinnar breyttum við lágmarkinu, eins og hefur komið fram hér, ég ætla ekki að eyða mörgum orðum í það, úr 50% starfshlutfalli í 25% og það skiptir mjög miklu máli vegna stöðunnar. Þeir atvinnurekendur sem helst taka við þessu höggi sögðu einfaldlega að 50% starfshlutfall væri of hátt. Þetta leiddi til töluverðs aukins kostnaðar fyrir ríkissjóð. En við töldum engu að síður að það væri réttlætanlegt.

Við fengum til okkar námsmenn sem höfðu töluverðar áhyggjur af þeim sem ekki eru á námslánum, sem eru í hlutastarfi eða jafnvel fullu starfi með fullu námi í háskóla eða framhaldsskóla til að framfleyta sér og fjölskyldum sínum. Raunveruleikinn í dag er að þeim námsmönnum sem framfleyta sér á námslánum hefur fækkað mjög hlutfallslega. Það eru mun fleiri sem vinna með námi. Ef þú tekur tíu einingar eða fleiri, eins og staðan er í dag, fullt nám telst til 30 eininga á önn, þá áttu ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Með þessu frumvarpi er verið að aftengja þetta. Námsmenn munu eiga rétt á atvinnuleysisbótum vegna minnkaðs starfshlutfalls til jafns við aðra. Þá er líka verið að aftengja það sem hefur verið að maður verði að vera í virkri atvinnuleit til að eiga þennan rétt. Ekki verður gerð krafa um virka atvinnuleit í þessu máli vegna þess að gert er ráð fyrir að maður fari bara í sitt fulla starf þegar þessu tímabili lýkur, af því að þetta er tímabundin aðgerð og við erum öll að horfa á það að þessu ljúki fyrr en síðar. Við erum að senda skýr skilaboð um það. Þar sem þetta er ekki heimatilbúið efnahagshrun heldur hrun vegna veiru sem herjar á heimsbyggðina þá sjáum við þróunina þar sem hún byrjaði fyrst, þetta er eins og fjallganga, við förum niður aftur sem í þessu tilviki er gott. Það er stundum talað um að það sé vont að fara niður aftur, en í þessu tilviki er gott að komast niður úr þessum Covid-toppi. Því er ekki talað um að viðkomandi þurfi að vera í virkri atvinnuleit til að eiga þennan rétt.

Þá er rétt að árétta, af því að það koma inn fjölmargar spurningar til okkar varðandi stöðu launamanns ef til uppsagnar kemur seinna, eftir að viðkomandi hefur samþykkt að minnka starfshlutfall en þarf seinna að leita algerlega í atvinnuleysisbætur eða önnur réttindi, að minnkað starfshlutfall hefur engin áhrif á framtíðarmöguleika viðkomandi launamanns. Það verður horft á tímabilið áður en þetta ástand hófst. Það er mikilvægt að þær upplýsingar fari sem víðast.

Aðeins varðandi álag á Vinnumálastofnun. Við höfðum miklar áhyggjur af því og fengum Vinnumálastofnun til okkar sérstaklega til að ræða um það álag sem er fyrirséð að verði á stofnuninni, bæði á öllu starfsfólki sem og tækjum og tölvubúnaði og þess háttar. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að horft sé til þess í stóra pakkanum, í því sem talað er um að gert verði ráð fyrir í einhvers konar fjárauka sem er auðvitað hægt að koma með hvenær sem er. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt, líka gagnvart heilbrigðiskerfinu, svo að það sé sagt hér, að við förum að sjá slíkar fjárheimildir afgreiddar hér á þinginu. Vinnumálastofnun verður að fá auknar fjárheimildir til að bregðast við þessu, til að ráða inn fleira starfsfólk til að taka á móti þeim kúfi sem er fram undan. Það er talað um að við séum mögulega að horfa á 20.000 umsagnir og þó að tekið hafi verið fram að skilyrðin í þessu séu þess eðlis að það minnki flækjustigið í umsóknarferlinu er alveg ljóst að umtalsvert álag verður á Vinnumálastofnun. Við sem fjárveitingavaldið og stjórnvöld verðum að gera okkar til að þetta starfsfólk, sem er auðvitað líka að kljást við veiruna í sínu nærumhverfi og út um allt og fjölskyldur þeirra, og skerta þjónustu í skólum o.s.frv., standist álagið og að við séum raunverulega að búa til úrræði sem verður virkt fljótt, að við séum ekki að búa til úrræði sem virkjast eftir 12 vikur eða 16 vikur. Það gengur auðvitað ekki. Höggið er núna. Venjulegur umsóknarfrestur um atvinnuleysisbætur hefur verið einhvers staðar á bilinu fjórar til sex vikur og við megum ekki láta umsóknarfrest í þessu vera lengri og hann á að vera styttri af því að þetta er svo langur tími. Fyrst í byrjun vikunnar heyrði ég að það væri alveg fyrirsjáanlegt að umsóknarfresturinn myndi lengjast í a.m.k. átta vikur og mögulega 12 vikur en það er ekki í boði. Við getum ekki verið að svara fólki sem leitar eftir þessu úrræði einhvern tímann um mitt sumar. Við verðum að tryggja að álagið verði ekki meira hjá Vinnumálastofnun, ráða þangað inn fleira fólk. Það er fullt af fólki sem er núna að missa vinnuna sem við getum nýtt í þetta og við þurfum bara að vera stórhuga, vera útsjónarsöm og átta okkur á því að það kerfi sem við erum að búa til hér, þessi lagasetning, á að virka.

Ég tel rétt að minnast á það, í lokin á þessari stuttu yfirferð minni, að milli 2. og 3. umr. mun koma inn breytingartillaga við málið sem varðar heimild skattyfirvalda eða ríkisskattstjóra til að veita upplýsingar að eigin frumkvæði til Vinnumálastofnunar vegna þeirra sem eru að nýta sér þetta úrræði. Þar eru upplýsingar sem Vinnumálastofnun hefur nú þegar heimild til að kalla eftir hjá ríkisskattstjóra. En við teljum rétt, vegna þess hvernig vinnslu er háttað hjá ríkisskattstjóra og hversu mikilvægar upplýsingar koma þangað inn, að veita stofnuninni heimild í þessu tímabundna úrræði til að vinna meira með Vinnumálastofnun og hafa eigið frumkvæði að því að flagga ef eitthvað er að misfarast í kerfinu. Við teljum að slík heimild sé nauðsynleg og höfum verið í sambandi bæði við ríkisskattstjóra og Persónuvernd út af þeirri heimild. Ég mun flytja breytingartillögu milli 2. og 3. umr. er þetta varðar.

Að lokum vil ég ítreka þakkir til nefndarinnar, þakkir til allra nefndarmanna. Þetta hefur verið hörkupúl en ég vona að við höfum náð að sýna líka stjórnvöldum að við getum svo vel unnið saman þvert á flokka þegar á reynir.