150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[13:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka þeim sem hafa tekið til máls í þessari umræðu og þakka formanni nefndarinnar, sem hér talaði síðast, fyrir mikla og góða vinnu í nefndinni. Hún hefur haldið vel utan um þá hluti alla saman. Þeim sem eru að reyna að sjá á púltið vil ég segja að hér stendur: „Forðist að snerta púltið“. Þess vegna eru allir með tuskur í ræðustól þessa dagana sem er bara eðlilegt og gott.

Mig langar að koma inn á nokkur atriði varðandi þetta mál. Fyrst langar mig aðeins að fara yfir það, þannig að það sé alveg skýrt, að sá fyrirvari sem fulltrúi Miðflokksins hafði í nefndinni sneri m.a. að því að hún taldi að kannski hefði verið hægt að ganga lengra í ákveðnum þáttum í málinu, t.d. varðandi þau aldursmörk sem annars staðar eru sett inn. Mig langar hins vegar að taka undir það að málið hefur batnað mjög mikið í meðferð nefndarinnar. Satt best að segja var maður svolítið hissa þegar málið kom frá ríkisstjórninni á því hvernig það leit út. Það var eins og metnaðinn vantaði í það ef ég má orða það þannig. Úr því hefur verið bætt í nefndinni. Auðvitað getum við haft alls konar skoðanir á því hversu langt á að ganga, hversu mikið á að gera, hvar á að fókusera og hvar ekki. Ég er þeirrar skoðunar að við þær aðstæður sem nú eru uppi eigum við að ganga allt of langt í fyrsta skrefi, draga síðan úr og fara til baka ef á þarf að halda. Menn geta sagt að það sé flumbrugangur en ég held að það sé betra við þessar aðstæður. Þar af leiðandi tek ég undir með þeim sem hafa velt fyrir sér hvort þakið sem þarna er sett eigi að vera hærra. Ég held að það eigi að vera hærra. Það er gott að við erum að vernda þá sem lægstar hafa tekjurnar en við verðum líka að huga að því að þegar dregst saman hjá þeim sem hafa hærri tekjur geta þeir kannski illa staðið í skilum með skuldbindingar sínar og jafnframt minnkar veltan úti í samfélaginu. Aðilarnir sem hefðu annars haldið veltunni gangandi að einhverju leyti draga líka úr neyslunni. Ég hefði viljað sjá þakið hærra og taka í raun alla í fangið til að byrja með, tína síðan úr þá hópa sem ekki þurfa aðstoð.

Ég hef áhyggjur af þeim sem eru á atvinnuleysisbótum í dag og eiga að fara af bótum út á vinnumarkaðinn. Ég hef ekki fengið skýrt svar við því sem ég velti upp í andsvari í dag þegar ég spurði: Hvað verður um þá? Þetta er nokkuð sem við þurfum að taka til skoðunar og reyna að finna lausn á.

Kannski hefði verið betra að hafa gildistímann lengri til að menn sæju lengra fram í tímann en stytta hann seinna ef ekki væri þörf á lausninni.

Ég held líka að það hefði verið mjög gott ef stjórnvöld kæmu skýrt fram og segðu við fyrirtækin: Ekki hlaupa til, við ætlum að koma með almennar, stórar aðgerðir. Hér er aðeins verið að klæðskerasauma aðgerðirnar, eins og kom fram í máli eins stjórnarþingmanns í dag. Það þarf að gera á einhverjum tímapunkti en ég held að nú hefðum við átt að stíga fram með stórar, almennar aðgerðir.

Ég held að það sé líka mjög mikilvægt að þeim sem mögulega sjá fram á samdrátt í tekjum eða jafnvel að missa atvinnu verði sagt að á meðan það versta gengur yfir séu þeir í skjóli með skuldbindingar sínar. Fyrirtæki og einstaklingar eiga núna að fá skýr skilaboð um að það sé greiðsluskjól í ákveðinn tíma, lengri tíma en styttri, þrjá mánuði, fjóra mánuði, fimm mánuði. Það gengur ekki að við upplifum sama ástand og fyrir tíu árum eða svo þegar farið var að velja hverjir áttu að lifa og hverjir ekki. Við höfum nú þegar heyrt ráðherra ríkisstjórnarinnar tala um lífvænleg fyrirtæki, og ekki bara ráðherra ríkisstjórnar, fleiri hafa notað þetta orð. Mér hugnast ekki að við séum komin á þann stað í dag að fara að velja hvaða fyrirtæki eiga að lifa og hver ekki vegna þess að í kjölfarið fylgir ýmislegt annað, heimili, jafnvel sparnaður fólks o.s.frv. Við þurfum að vanda gríðarlega mikið þau skref sem tekin eru.

Eins og aðrir sem hér hafa talað hefði ég satt að segja viljað sjá betra samtal og samráð við stjórnarandstöðuna. Það er búið að segja að það verði gert og ber að fagna því. Ég hygg að mikilvægt sé að það samtal og samráð eigi sér stað tímanlega þannig að stjórnarandstaðan geti komið á framfæri hugmyndum sínum, lagt þær í púkkið, komið að málum og sagt: Þetta er fínt sem þið eruð að gera, kæru ráðherrar, en þetta gengur ekki nógu langt. Gerum þetta, við getum bundist samtökum um þetta. Það er alveg ljóst að kostnaðurinn fyrir samfélagið, kostnaður Íslands, ríkissjóðs, verður mikill á næstu árum. Við þurfum að skuldsetja ríkissjóð núna um tugi eða hundruð milljarða til að bregðast við vandanum. Þetta er fordæmalaus vandi og við verðum að sætta okkur við það. Við sáum það eftir efnahagshrunið að við unnum okkur nokkuð hratt upp úr þeim áföllum og ég held að það sé engin ástæða til að ætla annað en að slíkt gerist líka núna. Ef fram fer sem horfir, ef þessi ófögnuður, þessi veira, gengur yfir á ákveðnum tíma eins og við sjáum frá öðrum löndum, vitum við að hjólin fara að snúast eftir einhverja mánuði. Þótt það taki efnahagslífið og samfélagið aðeins lengri tíma, jafnvel ár, að ná sér á fullt skrið munu markaðir opnast og ferðamenn munu byrja að koma. Þá þurfum við að vera tilbúin að taka á móti þeim. Ríkissjóður mun jafna sig. Við þurfum aðeins að seinka stóru framtíðarplönunum sem við höfðum fyrir nokkrum mánuðum en þetta mun allt koma ef við tökum slaginn núna strax, erum stórhuga og ófeimin við að fara í almennar, stórar aðgerðir.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að nýta allan ræðutímann, ég vildi fyrst og fremst koma þessum hugleiðingum á framfæri varðandi fyrirvarann sem okkar ágæti fulltrúi í nefndinni hafði um að okkur í Miðflokknum finnst að hægt hefði verið að ganga lengra. Við bíðum að sjálfsögðu spennt eins og aðrir eftir frekari tillögum ríkisstjórnarinnar. Við höfum sjálf sett fram ákveðnar tillögur, við höfum reynt að dreifa þeim, sent þær á fjölmiðla sem hafa ekki séð ástæðu til að birta þær. Við höfum hins vegar dreift þeim á Facebook og þetta eru tillögur sem við hefðum viljað sjá verða að veruleika strax en núna eru þær bara tillögur sem eru settar í púkkið og við erum tilbúin að vinna með stjórnvöldum að lausn og útfærslu.