150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[13:36]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mjög. Þetta mál gæti, með þeim breytingum sem orðið hafa á því, orðið ein áhrifaríkasta og viðamesta aðgerðin til að lyfta undir með heimilum og fyrirtækjum á komandi mánuðum. Það er fagnaðarefni að sjá hversu gott samstarf náðist í hv. velferðarnefnd og hversu miklum og góðum breytingum málið almennt hefur tekið. Það er alveg ljóst að málið, eins og það kom fram fyrst, dugði engan veginn til þess að takast á við þann vanda sem fyrirtækin eru að glíma við og hefði að óbreyttu getað leitt til mun meira umfangs uppsagna nú um mánaðamótin heldur en vonandi verður raunin, að þessu frumvarpi samþykktu. Það ber auðvitað sérstaklega að nefna ákvæðið um starfshlutfall, það var lækkað úr 50% í 25%, sérstaklega var tekið utan um lágtekjuhópinn þannig að engar skerðingar eru á þá einstaklinga sem eru með 400.000 kr. eða lægra á mánuði og síðan var hámarksgreiðslan hækkuð lítillega.

Þetta sýnir hversu góðri samstöðu er hægt að ná í þessum sal þegar á reynir og verður vonandi vegvísir að samstarfi meiri hluta og minni hluta um þær aðgerðir sem nauðsynlegar munu reynast á komandi vikum og mánuðum vegna þessa fordæmalausa efnahags- og heilbrigðisástands sem við erum að glíma við.

Það er rétt að taka það fram strax í upphafi að það láðist að nefna í ræðu framsögumanns að Hanna Katrín Friðriksson, hv. þingmaður Viðreisnar, er áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd og er samþykk málinu, og því er lýst yfir í nefndaráliti, með þeim breytingum sem lagðar eru til. Það eru engu að síður nokkur atriði sem við hefðum viljað nefna þar sem hefði mátt ganga lengra. Fyrir það fyrsta er alveg ljóst að hámarkið, 700.000 kr., er enn of lágt. Flestar umsagnir, hvort sem litið var til umsagna Alþýðusambands Íslands, BHM, Samtaka atvinnulífsins eða fleiri, voru á þann veg að réttara væri að miða við hærri tölu, 800.000–900.000 kr. gjarnan nefndar í því samhengi, enda verður að hafa það í huga að meðallaun fyrir fullvinnandi einstakling á vinnumarkaði eru í dag um 750.000–770.000 kr., uppreiknaðar miðað við gögn Hagstofunnar. Það er því alveg ljóst að fólk á meðallaunum í fullu starfi tekur nokkrum skerðingum þrátt fyrir þetta ákvæði. Við verðum að hafa það í huga í þessari fordæmalausu stöðu að því miður mun þetta úrræði væntanlega verða mjög mikið notað af fyrirtækjum, í það minnsta á næstu tveimur til þremur mánuðum. Það er engin leið í sjálfu sér að geta sér til um hversu víðtækt það verður. En ég hygg að það sé alveg ljóst, sökum þess að við erum vonandi fyrst og fremst að glíma við tímabundið áfall en mjög þungt, að notkun þessa úrræðis verður mun meiri núna en var til að mynda í hruninu á sínum tíma. Þess vegna er mikilvægt að úrræðið sé metnaðarfullt, viðamikið og taki virkilega undir með atvinnulífi og heimilum til að takast á við það ástand sem við erum að glíma við núna.

Annað sem rétt er að hafa í huga er staða námsmanna í lágu starfshlutfalli sem engu að síður hafa treyst mjög á tekjur meðfram námi. Þetta úrræði nær ekki til þeirra. Viðkomandi eiga þá ekki rétt á atvinnuleysisbótum þar sem þau teljast ekki vera starfandi í þeim skilningi. Ég hygg að það sé mikilvægt fyrir Alþingi að huga að því, þegar reynsla kemur á framkvæmd þessa úrræðis um næstu mánaðamót, að við séum strax reiðubúin til að lagfæra ýmsa hnökra sem kunna að vera á því í framhaldinu. Það er alveg augljóst að hér rennur þingið nokkuð blint í sjóinn með það hvernig úrræðið verður nýtt, hverjum það nýtist best og hvaða hópum, sem það ætti að ná til, það mun á endanum ekki gagnast eins og það lítur út í dag.

Síðast en ekki síst um gildistímann: Í meðhöndlun nefndarinnar er gildistími úrræðisins styttur um einn mánuð þannig að nú er lagt til að það gildi til 1. júní í stað 1. júlí áður. Það tel ég miður. En það er mikilvægt í því samhengi að stjórnvöld og þingið lýsi því afdráttarlaust yfir að úrræðið verði framlengt eins og þörf krefur eftir því sem við sjáum betur framan í hversu langvinnt ástandið sem við erum að glíma við kann að verða. Það er augljóslega mjög mikilvægt t.d. fyrir ferðaþjónustuna að geta haldið ráðningarsambandi við starfsfólk sitt eins lengi og kostur er og þar er óvissan hvað mest um það hvenær þessu tímabundna höggi linnir og hversu hratt ferðalög taka við sér þegar veiran hefur gengið yfir bæði hér á landi og í nágrannalöndum okkar og um heim allan. Þetta held ég að sé mikilvægt að hafa í huga og mjög mikilvægt að stjórnvöld taki skýrt fram að þessu úrræði verði beitt eins lengi og þurfa þykir. Það verði enginn vafi, hvorki fyrir fyrirtæki né almenning, þar að lútandi.

Ég fagna þeim breytingum sem málið hefur tekið. Þær eru allar sem hér eru lagðar fram verulega til bóta og málið mun betra og öflugra tæki fyrir okkur en það var þegar það kom inn til þingsins.