150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[13:42]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að koma hérna upp til að fagna þessu frumvarpi sem við höfum verið að vinna með í velferðarnefnd og vil nota tækifærið að taka undir orð þingmanna sem hafa komið upp og fagnað þeirri vinnu sem fór fram í nefndinni. Það má segja að velferðarnefnd hafi staðið sem einn maður að þessu máli þótt það hafi verið misjafnar áherslur. En við náðum einni niðurstöðu sem allir voru sáttir við.

Frumvarpið kom frá ríkisstjórninni í byrjun þessarar viku, var tilbúið fyrir um viku, og hefur tekið breytingum bæði í meðferð nefndarinnar og með góðri samvinnu við fulltrúa ráðuneytisins. Frumvarpið kemur frá hæstv. félagsmálaráðherra, Ásmundi Einari Daðasyni, og við höfum verið í góðu sambandi við ráðuneytið um þessar tillögur. Það var vitað þegar þetta frumvarp kom frá ríkisstjórninni, og tillögurnar, að ástandið myndi breytast og það hefur breyst má segja frá klukkutíma til klukkutíma, frá degi til dags, en það var góð niðurstaða sem fékkst. Það var áætlað í byrjun að frumvarpið myndi kosta okkur tæpar 800 milljónir en við sjáum að ef 20.000 einstaklingar nýta sér þessi úrræði verða þetta tæpir 13 milljarðar og getur farið upp í allt að 30 milljarða ef 50.000 manns nýta sér þetta.

Málið snýst um að koma til móts við fólk sem hefur ráðningarsamband við sinn atvinnurekanda og grípa þá einstaklinga og líka þá sem eru sjálfstætt starfandi. Mig langar að koma aðeins inn á það því að það hefur verið svolítil spurning hvernig úrræðið getur gripið þá. Þeir sem eru sjálfstætt starfandi og eru með reiknað endurgjald hafa rétt á atvinnuleysisbótum á meðan starfsemi þeirra fellur niður. Þeir sem eru sjálfstætt starfandi falla undir ákveðinn viðmiðunarflokk ríkisskattstjóra eftir því við hvað þeir starfa og hvaða starfsemi þeir eru með og greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs út frá frumvarpinu taka mið af því endurgjaldi og viðmiðunarflokki sem þeir hafa skilað inn á síðasta tekjuári eða 2019. Þetta skiptir miklu máli. Við getum nefnt bæði listamenn, sjálfstætt starfandi atvinnurekendur, hárgreiðslufólk og svo mætti lengi telja og verður varla upptalið. Þeir geta tekið mið af því endurgjaldi sem þeir hafa greitt.

Eins er ég afskaplega ánægð með það að okkur tókst að ná utan um hópinn með lægstu tekjurnar, undir 400.000 kr. Það held ég að hafi skipt mestu máli, miklu meira máli en að við séum að ná til þeirra tekjuháu vegna þess að þetta frumvarp tekur bara til þriggja mánaða. Maður verður að halda að þeir sem eru tekjuhærri hafi borð fyrir báru, komist af þessa mánuði þótt vissulega verði tekjufall. Auðvitað sér maður að það er innspýting inn í hagkerfið ef þeir eyða sínum krónum í neyslu. En það er sama, það skiptir mestu máli á þessum tímum að við náum utan um þá sem eru lægst launaðir. Þetta er oft ungt fólk sem er kannski með lítil börn á framfæri og hefur ekki annað að lifa af en þær tekjur sem það horfir kannski fram á að missa.

Vissulega eru þarna alls konar hópar sem úrræðið tekur ekki til, t.d. námsfólk í hlutavinnu. Til okkar komu námsmenn frá stúdentaráði og fleirum og sögðu okkur að þeir væru í íhlaupavinnu, jafnvel bara afleysingum, og þeir fengju bara SMS: Þú þarft ekki að mæta aftur. Þeir voru ekki með neitt ráðningarsamband og þá eru þeir að missa það sem þeir höfðu til að fleyta sér yfir námstímann. Það er mikil óvissa hjá námsmönnum, bæði menntskælingum og háskólastúdentum, því hvernig verður svo sumarið? Þeir hafa getað komist í þau störf sem hafa verið í boði í ferðaþjónustunni og á fleiri stöðum en eru kannski ekki fyrirliggjandi í sumar. Þetta eru miklir óvissutímar sem ná jafnvel fram á næstu önn. Það skiptir máli að það verði einhverjar aðrar aðgerðir en þessar vegna þess að ef námsmenn hafa ekki verið í ráðningarsambandi taka þessi úrræði ekki til þeirra, nema þeir sem ekki hafa slíkt samband komist beint á atvinnuleysisbætur og það skiptir líka miklu máli. Það er því mikilvægt að aðrar aðgerðir sem ríkið hefur boðað, eru kannski ekki komnar fram en boðað hefur verið að séu í pípunum, taki utan um þessa viðkvæmu hópa.

Það var nú kannski ekki mikið fleira sem ég vildi nefna, bæði hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, framsögumaður nefndarálits, og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir, formaður nefndarinnar, hafa komið inn á þetta og útskýrt málið mjög vel. Vil ég að endingu þakka aftur kærlega fyrir starfið í nefndinni. Það var virkilega gaman að vinna að þessu eins og einn maður. Ég þakka bæði nefndarfólki og formanni fyrir vel unnin störf.