150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví.

667. mál
[14:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Þetta verður ekki löng ræða hjá mér í þetta skiptið. Ég vil byrja á að þakka formanni velferðarnefndar, hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, fyrir að flytja okkur þetta nefndarálit. Eitt sem mig langar að koma á framfæri og hv. þingmaður kom aðeins inn á í sinni ræðu, og er minnst á í nefndarálitinu á bls. 2, er staða þeirra sem þurfa að vera heima með börn vegna skipulags sem þeir ráða ekki við, skipulags skóla eða einhvers annars þar sem börnin eru send heim og foreldrar þurfa að vera heima hjá þeim. Þetta þýðir tekjutap fyrir einhverja, einhverjir eru að nýta orlofið sitt í þetta og þess háttar, mögulega eiga einhverjir góða vinnuveitendur sem líta á þetta sem veikindadaga o.s.frv. Ég hefði viljað að frumvarpið, þegar það kom til þingsins, hefði tekið á þessu. Hér stendur að nefndin brýni ráðherra til að horfa til þessa og er það mjög gott, það er ánægjulegt að nefndin skuli gera það. En mig langar að nota tækifærið til að skora á nefndina, fyrst formaðurinn er í salnum, að fylgja því fast eftir að það komi tillögur frá ráðuneytinu eða ráðuneytið komi til viðræðna við nefndina um hvernig megi útfæra þetta því að það er drjúgur hópur fólks víða um land sem nú er heima hjá sínum börnum að kenna þeim eða að hafa ofan af fyrir þeim með öðrum hætti. Síðan langar mig að nefna það sem einhverjir hafa nefnt líka, varðandi 13 ára aldurstöluna. Manni finnst eðlilegt að miða við grunnskólaaldurinn, sá hluti er allur hjá sveitarfélögunum hvað það varðar. Þetta er það tvennt sem ég vildi koma á framfæri að svo komnu máli.

Við eigum örugglega eftir að fjalla oftar um sóttkví og þann vanda sem fylgir því þegar samfélagið er að stórum hluta í sóttkví og jafnvel einhverjir í einangrun, en það eru nokkur atriði sem ég held að við verðum að reyna að kippa í liðinn sem allra fyrst.