150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví.

667. mál
[15:14]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að við séum að greiða atkvæði um þetta mál sem líkt og forsætisráðherra kom inn á er unnið í framhaldi af yfirlýsingu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins til að tryggja að þeim einstaklingum sem þurfa að sæta sóttkví að tilmælum sóttvarnalæknis sé tryggð afkoma í sóttkví.

Ég þakka líka velferðarnefnd fyrir vinnslu þessa máls og þær breytingar sem gerðar hafa verið á málinu í góðu samstarfi við nefndina. Ég held að þetta sé gríðarlega mikilvægt mál og miðað við þann fjölda sem nú er í sóttkví sýnir sig að það er mikilvægt að þetta frumvarp styðji við þær aðgerðir sem sóttvarnalæknir hefur lagt til í þeim efnum.