150. löggjafarþing — 80. fundur,  20. mars 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

664. mál
[15:23]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um mjög mikilvægt mál í því fordæmalausa ástandi sem er uppi. Með því erum við að auka líkur á því að fyrirtæki óski þess að halda áfram ráðningarsamningi við sitt fólk og að launafólk geti haft möguleika á að fara niður í allt að 25% vinnu og Atvinnuleysistryggingasjóður greiði þá 75% af launum þess fólks. Þetta er mjög mikilvægt og góðar breytingar voru gerðar á frumvarpinu með að tryggja láglaunafólki og millitekjufólki gólf, að lágmarkið verði 400.000 kr., hámarkið 700.000 kr., og að við séum að mæta sjálfstæðum atvinnurekendum líka með að geta sótt bætur á móti þeirri vinnu sem býðst í hverjum mánuði sem og námsmönnum og öðrum þeim sem eru í hlutastarfi.

Ég tel að þetta mál hafi þróast í þá átt að við getum verið mjög sátt við það og ég lýsi ánægju yfir því að við gátum unnið þetta í samstöðu.