150. löggjafarþing — 81. fundur,  23. mars 2020.

aðstoð við fyrirtæki.

[10:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir góðar undirtektir við okkar fyrstu útspilum núna um helgina sem eru stærstu skref sem stigin hafa verið í efnahagsráðstöfunum hér á landi. En þeim er ekki fylgt eftir með orðunum: Þetta er nóg. Þeim er fylgt eftir með orðunum: Þetta er það sem við teljum rétt að gera á þessu stigi málsins og við trúum að muni koma til aðstoðar fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir tekjuhruni, svo dæmi sé tekið, og fjölskyldum og einstaklingum úti um allt samfélag sem hafa áhyggjur af framtíðinni. Við viljum létta áhyggjum af fólki og erum hér með mjög markviss úrræði sem grípa inn í þá stöðu að fjöldinn allur af fólki, eins og t.d. yfir 90%, sýndist mér, af starfsfólki Icelandair, er að missa starfshlutfall. Ríkið kemur inn í þá stöðu.

Ég vil ítreka að við erum ekki að fullyrða eitt eða neitt um það að þetta sé nóg. Það eru sterk rök fyrir því að ef þessi krísa dregst á langinn þurfum við að gera meira. Ef við veltum því fyrir okkur að þetta ástand muni leiða til þess að skuldir safnist upp í samfélaginu yfir tíma erum við í raun og veru fyrst og fremst að horfa á spurninguna: Hvar munu þessar skuldir safnast upp? Við vitum að ríkissjóður mun taka á sig verulega aukna skuldsetningu en við vitum á sama tíma að fyrirtækin þurfa að auka skuldsetningu sína. Einhvers staðar eru þó mörk á því hvað þau geta gengið langt. Það er alveg augljóst að við ætlum ekki að koma út úr þessari lægð þannig að við séum með það sem við kölluðum á sínum tíma zombí-fyrirtæki, uppvakninga sem geta sig ekki hreyft, hafa enga getu til að gera nokkurn hlut vegna þess að skuldirnar eru þeim orðnar ofviða.

Ég ætla að koma inn á það aðeins í síðara svari hvernig við sjáum fyrir okkur að fyrirgreiðsla verði veitt í kerfinu en við ætlum að gera mikla kröfu til þess að viðskiptabankarnir standi sig og nýti það svigrúm sem Seðlabankinn er að gefa þeim til að standa við bakið á þeirra viðskiptamönnum.