150. löggjafarþing — 81. fundur,  23. mars 2020.

aðstoð við fyrirtæki.

[10:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegur forseti. Já, við getum verið sammála um að það er mikilvægt að fyrirtæki sem það geta nýti sér þessa möguleika. Það er hins vegar þannig að ekki eru öll fyrirtæki lífvænleg, eru ekki með góðan rekstur, hafa kannski ekki getað safnað í sjóði vegna fjárfestinga og þess háttar og hafa því ekki möguleika á að nýta sér þetta, lítil ferðaþjónustufyrirtæki svo dæmi sé tekið þar sem menn eiga bara ekki sjóði til að mæta þessum 25%. Ég hef áhyggjur af því. Sum þessara fyrirtækja hafa t.d. haft samband og spurt: Hvað er í þessu fyrir okkur? Ég á ekki peninga fyrir mánaðamótin næstu, fyrir laununum, vegna þess það er engin innkoma, það er núll, ég þarf að borga af lánum og tryggingar o.s.frv. Þetta er áhyggjuefni.

Síðan held ég að það sé mjög mikilvægt, í ljósi þess að við hljótum hafi lært eitthvað af bankahruninu þegar bankarnir fóru í það að velja hverjir fengu að lifa og hverjir ekki, að vera með það alveg kristaltært að bankarnir geti ekki valið þá sem þeim hugnast og þóknast. Það verður að vera algjört gagnsæi og þeir sem telja sig hlunnfarna í því verða að getað leitað eitthvert annað til þess að fá úrlausn sinna mála eða niðurstöðu.