150. löggjafarþing — 81. fundur,  23. mars 2020.

vandræði ferðaþjónustunnar.

[10:41]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra mun mæla fyrir aðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna Covid-19 heimsfaraldursins að loknum þessum dagskrárlið. Aðgerðirnar miða flestar að því að gefa fyrirtækjum sem missa tekjur tímabundið möguleika á að lifa dýfuna af og taka aftur til starfa þegar faraldurinn er genginn yfir. Það er vissulega mikilvægt og margar góðar tillögur þar á meðal. Ferðaþjónustan, sem fyrir skellinn var stærsta atvinnugreinin á Íslandi og stóð undir tæpum 9% af landsframleiðslu í fyrra, stendur nú berskjölduð. Ferðaþjónusta er svo að segja hrunin úti um allan heim og sama má segja um greinina hér heima. Mörg hótel og gistiheimili er í miklum vanda. Í sumum þeirra er engin starfsemi þessa dagana, allt í frosti og starfsmenn komnir á atvinnuleysisbætur.

Ég vil spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hvort hann reikni með því að ferðaþjónustan taki við sér á þessu ári eða hvort hann telji að það geti tekið greinina langt fram á næsta ár eða lengur að rétta eitthvað úr kútnum. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru tímabundnar og almennar. Líklegt er að ferðaþjónustan þurfi frekari aðstoð sem beinist sérstaklega að greininni. Mun hæstv. ráðherra nýta rýmri heimildir um ríkisstyrki sem Evrópusambandið og Eftirlitsstofnun EFTA hafa gefið út vegna þessa ástands og ef nauðsyn krefur óska eftir undanþágu frá Eftirlitsstofnun EFTA til að beina aðgerðum sérstaklega að t.d. hótelum, gistiheimilum og flugi? Á heimasíðu ESA er að finna viðmiðunarreglur og þar eru nefndar mögulegar undanþágur fyrir ríkisstyrki til ferðaþjónustu í þessu ófremdarástandi.