150. löggjafarþing — 81. fundur,  23. mars 2020.

vandræði ferðaþjónustunnar.

[10:45]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það var athyglisvert en ég vil þó hvetja ráðherrann til að teikna upp þá sviðsmynd í ráðuneyti hans hvernig beita mætti sértækum aðgerðum og beina þeim að fyrirtækjum sem ættu í erfiðleikum með að reisa sig við á stuttum tíma þegar við réttum úr kútnum.

Herra forseti. Heilbrigðiskerfið er fyrsta varnarlínan þegar ógn steðjar að og það sannast rækilega í núverandi ástandi. Gott og sterkt heilbrigðiskerfi varðar þjóðaröryggi. Heilbrigðiskerfið okkar er undir miklu álagi og það mun þurfa aukið fjármagn svo ekki myndist verulegur hallarekstur á yfirstandandi ári. Ekkert er hins vegar um aukið fjármagn til heilbrigðiskerfisins í fjáraukanum sem við ræðum síðar í dag og ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort við getum ekki treyst því að halli í ár verði bættur þannig að heilbrigðisstofnanir þurfi ekki að skera niður þjónustu (Forseti hringir.) á næsta ári til að vinna upp hallann sem myndast á þessu ári.