150. löggjafarþing — 81. fundur,  23. mars 2020.

verðtrygging lána.

[10:48]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Nú þegar Covid-veiran er á fullu að herja á heimilin óttast ég mjög — og ég ætla að verða eiginlega eins og gömul grammófónplata sem hjakkar alltaf í sama farinu — um ekki bara fólkið í landinu heldur heimilin. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hvað ætlar hann að gera í sambandi við verðtrygginguna? Verðbólgudraugurinn mun koma upp og það mun koma stökkbreyting á verðtryggð lán heimilanna. Eins og við vitum að skeði í hruninu mun það bitna á þúsundum heimila ef ekkert verður að gert. Ég vil bara fá svar núna strax við spurningunni: Hvað ætlar fjármálaráðherra að gera í þessu? Er hann tilbúinn að taka verðtrygginguna úr sambandi á heimilislán, á lánin hjá heimilum, núna strax? Við getum gert þetta einn, tveir og þrír, bara til að róa fólk niður. Ætlar hann að bíða þangað til að þeir sem eiga minnst í húsnæðinu eru búnir að missa allar sínar eigur? Hvenær á að gera þetta? Ég vil fá svar við því.

Síðan vil ég líka fá svar við því hvers vegna ekkert er í pakkanum hjá honum um það hvernig á að styðja við einstaklinga sem eru verst settir á Íslandi. Það er unnið fyrir barnafólk en það eru einstaklingar sem eru svo illa staddir að þeir eru að reyna að halda húsnæðinu með svo lágar bætur og svo lágt útborgað að það er útilokað. Þetta fólk getur ekki einu sinni keypt sér mat, getur ekki einu sinni farið út í búð og náð í mat af því að það á ekki pening.

Síðan er annað í þessu. Af hverju eru ekki lagðir peningar í Hjálparstarf kirkjunnar, Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálpina til að þessir einstaklingar geti keypt t.d. lýsi, C-vítamín og D-vítamín? Það hefur komið fram að þetta hjálpar. Setjum þarna peninga í að hjálpa þessu fólki. Ég vil fá að sjá hvað ráðherra er að gera í því. Hvenær verður þessi hópur undir?