150. löggjafarþing — 81. fundur,  23. mars 2020.

verðtrygging lána.

[10:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ákveðin teikn eru á lofti. Við erum búin að sjá gengi evrunnar fara úr 136 í 150 og dönsku krónuna og allt gengið á fleygiferð upp. Þetta þýðir á mannamáli að allar vörur munu hækka. Allt mun hækka sem er einmitt ávísun á verðbólguskot.

Þó að vextirnir séu 0 segir það ekki alla söguna. Við verðum jafnframt að átta okkur á því hverjir taka verðtryggð lán. Það eru þeir sem hafa lægstu launin vegna þess að þar er greiðslubyrðin minnst. Hverjir taka óverðtryggð lán? Þeir sem eru á hæstu laununum, þeir sem geta þar af leiðandi borgað mun hærra hlutfall af sínum tekjum í afborganir af íbúðalánum. Þetta segir okkur að það er himinn og haf á milli þessara einstaklinga. Ég vona heitt og innilega að þið takið það inn í ef í ljós kemur að verðbólgan er að fara af stað. (Forseti hringir.) Ég fagna því einnig að þið ætlið að setja fjármuni inn í hjálparstofnanir svo að þær geti sinnt þeim sem minnst mega sín.