150. löggjafarþing — 81. fundur,  23. mars 2020.

kjarasamningar við hjúkrunarfræðinga.

[10:55]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Það er skortur á heilbrigðisstarfsfólki, hjúkrunarstarfsfólki. Starfsskilyrði hafa lengi verið svo slæm að fjölmargir menntaðir hjúkrunarfræðingar starfa ekki sem hjúkrunarfræðingar. Þetta veit heilbrigðisráðherra. Það voru sett lög á verkfall hjúkrunarfræðinga og annars heilbrigðisstarfsfólks fyrir fimm árum þó að varað hefði verið við því að það myndi valda skorti á heilbrigðisstarfsfólki. 200 hjúkrunarfræðingar sögðu upp. Þetta veit heilbrigðisráðherra. Svo til að bíta höfuðið af skömminni barðist ríkið gegn því að hjúkrunarfræðingar fengju sín fullu laun í verkfallinu. Þetta veit heilbrigðisráðherra. Kjarasaga hjúkrunarfræðinga er áralöng saga niðurlægingar.

Núna hefur fjármálaráðherra ekki tekist að semja við hjúkrunarfræðinga í heilt ár. Hjúkrunarfræðingar hafa sagt okkur að það sé aðeins launaliðurinn sem standi út af til að klára samningana. En hæstv. fjármálaráðherra sagði við fyrirspurn minni fyrir helgi að hann myndi ekki samþykkja launakröfur hjúkrunarfræðinga. Hjúkrunarstarfsfólk er ekki gráðugt fólk. Maður velur ekki að hjúkra fólki og setja fólk í forgang ef peningar eru þér efst í huga. Hjúkrunarfræðingar vilja að launin hækki nógu mikið til þess að nógu margir menntaðir hjúkrunarfræðingar komi til starfa sem hjúkrunarfræðingar og létti álagi af hinum. Upprætum skortinn. Hjúkrunarstarfsfólkið er langþreytt.

Ég vil spyrja: Hvað ætlar heilbrigðisráðherra að gera til að uppræta skortinn á hjúkrunarfræðingum? Hjúkrunarfræðingar munu standa með okkur í gegnum þennan faraldur. Það er hægt að treysta þeim til þess. Þeir munu setja sig í hættu fyrir okkur, þeir munu veikjast fyrir okkur. Við getum treyst því að þeir muni hugsa um okkur. Og þegar faraldurinn er búinn þá munu þeir fara nema við sjáum sóma okkar í því að standa með þeim núna. Hvað ætlar heilbrigðisráðherra að gera til að sporna við skorti á hjúkrunarfræðingum?