150. löggjafarþing — 81. fundur,  23. mars 2020.

kjarasamningar við hjúkrunarfræðinga.

[11:01]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að fá tækifæri til að svara þessu. Nú er það þannig hér á Íslandi að það er gríðarlega vel haldið utan um þessi mál og forstjórar allra heilbrigðisstofnana funda á hverjum morgni með aðgerðastjórn almannavarna, sóttvarnalækni og landlækni til að fara yfir stöðuna. Það er lögð gríðarlega mikil áhersla á það að hver og ein heilbrigðisstofnun, sama hvar hún er í sveit sett, sé undir það búin að taka á móti smituðum einstaklingi í mismunandi ástandi. Til þess þarf að tryggja viðunandi hlífðarbúnað og að hann sé notaður og nýttur. Mig langar líka til að þakka fyrir það að fjöldi skráðra í bakvarðasveit heilbrigðisstarfsfólks er núna, í morgun klukkan hálftíu, 574 heilbrigðisstarfsmenn sem eru úti um allt samfélagið og eru tilbúnir að koma inn í verkin og sumir þeirra, meira en helmingur þeirra, til að fara inn í framlínuna og sinna Covid-smituðu fólki. Þar á meðal eru 183 hjúkrunarfræðingar og fyrir það er þakkað hér í dag.