150. löggjafarþing — 81. fundur,  23. mars 2020.

vinna nefnda við stjórnarfrumvörp.

[11:07]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Ég held að einmitt við þessar kringumstæður sé mjög mikilvægt og það er bara rík krafa um það í samfélaginu að við sem hér störfum snúum bökum saman og vinnum sem einn maður að lausn á þeim brýnu vandamálum sem við er að etja. Það er alveg ljóst að forgangurinn í þeim málum sem hér er verið að ræða eða forgangurinn í þeirri vinnu, bæði í fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, hvað varðar mögulegar breytingar eða lagfæringar hlýtur alltaf að snúa að bráðaaðgerðunum, því sem hefur áhrif næstu tvo til þrjá mánuðina. Við sjáum auðvitað að staðan versnar frá degi til dags, hefur verið að versna í raun og veru stöðugt á meðan ríkisstjórnin hefur haft þessi mál til meðhöndlunar. Því má vel vera að það þurfi að ganga lengra í einhverjum tilvikum eða þurfi að gera einhverjar breytingar.

Því fagna ég því að hæstv. ráðherra taki vel í þessa málaleitan. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þingið hafi gott umboð til að vinna þessi mál (Forseti hringir.) vel og vandlega og í góðu samstarfi. Ég vona svo sannarlega, og við í Viðreisn munum leggja okkar af mörkum hvað það varðar, að okkur takist vel til.