150. löggjafarþing — 81. fundur,  23. mars 2020.

samningar við hjúkrunarfræðinga.

[11:10]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil fyrst óska ráðherra og ráðuneyti hans góðs gengis í þeirri vinnu sem fram undan er. Ég veit að þetta er ekki auðvelt og fólk er svo sannarlega að reyna að gera sitt besta. Ég vil einnig lýsa yfir miklum þökkum til allra heilbrigðisstarfsmanna sem eru þessa dagana í framlínu almannavarna og heilsuverndar. Í svona neyðarástandi sjáum við vel hversu mikill auður, í raun þjóðarauður, er í okkar frábæra heilbrigðisstarfsfólki. Þetta fólk vinnur núna undir ótrúlegu álagi og álagið mun því miður einungis aukast á næstunni. Nú eru hjúkrunarfræðingar sú heilbrigðisstétt sem reynir hvað mest á, þetta er fjölmennasta heilbrigðisstéttin og í raun lykilviðbragðsaðili í þessu öllu saman. Þess vegna sætir furðu af hverju ekki er búið að tryggja hjúkrunarfræðingum nýjan kjarasamning. Hjúkrunarfræðingar hafa nú verið samningslausir við ríkið í meira en ár. Meira en ár er liðið frá því að gerðardómur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga rann út og þar með miðlægur kjarasamningur félagsins við ráðherra. Síðasti kjarasamningur sem hjúkrunarfræðingar skrifuðu undir var árið 2014 og hafa hjúkrunarfræðingar því ekki samið um kaup og kjör við íslensk stjórnvöld í meira en fimm ár.

Ég verð þess vegna að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra, sem er lykilráðherra í þessari ríkisstjórn: Stendur til að ljúka kjarasamningi við hjúkrunarfræðinga? Af öllum stéttum í landinu á þessi stétt ekki að vera samningslaus og hvað þá á þessum tíma. Mun ráðherra beita sér fyrir því að samið verði við hjúkrunarfræðinga? Þá á ég við í þessari viku. Það vill svo til að næsti samningafundur er einmitt á morgun þannig að aðilar eru að hittast. Ég hef þá trú og traust á ráðherra að hún geti beitt sér fyrir þessu. Ég veit að hún vill að sjálfsögðu sjá kjarasamninga en við þurfum þá að sýna það í verki. Ég ítreka hér í lokin (Forseti hringir.) að það er óskiljanlegt að þessi stétt sé ekki með samning við ríkið við þær aðstæður sem nú eru uppi.