150. löggjafarþing — 81. fundur,  23. mars 2020.

samningar við hjúkrunarfræðinga.

[11:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram í svari mínu við fyrri fyrirspurn í þessum fyrirspurnatíma er ég sammála því að það verður að ljúka þessum kjarasamningi. Ég hef væntingar til þess að bilið styttist milli aðila. Hv. þingmaður dregur þessa stöðu fram núna í ljósi ástandsins og ég er í sjálfu sér sammála því að þetta ástand dregur enn meira fram hversu bagalegt það er að ekki séu í gildi kjarasamningar við lykilstéttir eins og hér er um að ræða. Ég er þeirrar skoðunar að á öllum tímum þurfi að vera í gildi kjarasamningur við hjúkrunarfræðinga, hvort sem um er að ræða yfirstandandi glímu við Covid-19 eða ekki, og vil draga fram í þessari umræðu að það mikla viðbragð sem heilbrigðiskerfið okkar sýnir, er í raun og veru að sýna sitt afl, er allt frá sýnatökum í gegnum rakningu og sóttkví og síðan nýja göngudeild sem Landspítalinn er búinn að koma á laggirnar sem snýst um að fylgja eftir hverjum einasta einstaklingi sem er í einangrun vegna Covid-19, tala við viðkomandi í síma á hverjum degi eða annan hvern dag. Þetta utanumhald er einstakt á heimsvísu. Það sem Landspítalinn er að gera þarna er þjónusta sem við sjáum ekki annars staðar í heiminum og þessi símtöl eru meira og minna unnin af hjúkrunarfræðingum en auðvitað líka læknum. Svo reynir á þegar kemur að sjúkrahúsinnlögn og þar höfum við séð hvað lykilstéttir okkar eru mikilvægar.