150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Með þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum um skatta og gjöld vegna þeirrar miklu óvissu sem ríkir nú í atvinnulífi og efnahag landsins eftir að lýst hefur verið yfir heimsfaraldri vegna kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 sjúkdómnum.

Nú þegar hefur orðið mikill samdráttur í ferðaþjónustu og fleiri atvinnugreinum, bæði hér á landi og erlendis, og ófyrirséð er hve lengi samdrátturinn muni standa yfir. Fyrirséð er að áhrif á ferðaþjónustu, þar með talið flugrekstur, verði mikil, m.a. vegna ýmissa takmarkana sem ríki hafa sett á komur erlendra ríkisborgara og ráðlegginga stjórnvalda til fólks um að takmarka ferðalög. Ýmsar aðgerðir sem tengjast aðgerðum til að hemja faraldurinn hafa áhrif á velflest fyrirtæki í landinu. Þá er ljóst að faraldurinn mun einnig hafa mikil áhrif á stöðu ríkissjóðs. Auk breytinga á lögum um skatta og gjöld eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að því er varðar tímabundna heimild til úttektar á séreignarsparnaði og lögum um ríkisábyrgðir vegna ábyrgðarskuldbindinga ríkissjóðs.

Með þeim aðgerðum sem við leggjum nú fyrir Alþingi er tekist á við efnahagsvandann sem fylgir þeirri heilbrigðisvá sem steðjar að íslensku samfélagi um þessar mundir af völdum faraldursins. Aðgerðir okkar miða fyrst og fremst að því að verja störf fólks með því að treysta rekstrarumhverfi fyrirtækjanna og tryggja þannig afkomu heimilanna. Sá tilgangur aðgerðanna að hjálpa fólki og fyrirtækjum að taka réttar ákvarðanir er í fyrirrúmi. Við höfum þegar samþykkt ráðstafanir til að gera fólki kleift að taka réttar heilsufarslegar ákvarðanir með því að greiða t.d. laun í sóttkví en við viljum líka auðvelda fyrirtækjum að taka réttar efnahagslegar ákvarðanir með því að halda fólki í vinnu þótt starfshlutfall kunni að skerðast og stytta þannig tímann sem tekur að hefja aftur efnahagslega sókn þegar ástandinu af völdum veirunnar linnir. Þannig viljum við gera okkar til að létta áhyggjum og byrðum af launafólki og atvinnurekendum. Þannig viljum við grynnka þá efnahagslegu lægð sem er fyrirsjáanleg.

Ég mun nú fjalla nokkuð ítarlega um einstök efnisatriði frumvarpsins en þessi yfirferð er ekki endilega í þeirri röð sem er að finna í frumvarpinu. Ég ætla að byrja á frestun gjalddaga, staðgreiðslu og tryggingagjalds. Eins og menn þekkja var eitt fyrsta skrefið sem við tókum að fresta gjalddaga sem nýlega leið, þ.e. að veita öllum heimild til að greiða einungis helminginn sem þá var að koma á eindaga. Hér er veitt innsýn í það sem tekur við.

Þeim aðilum sem standa í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls verður heimilt að óska eftir fresti á allt að þremur af þeim níu greiðslum sem verða á gjalddaga vegna skila á staðgreiðslu á tímabilinu frá 1. apríl 2020 til 1. desember 2020. Skilyrði greiðslufrests eru að í fyrsta lagi sé um að ræða a.m.k. þriðjungssamdrátt í rekstrartekjum yfir heilan mánuð borið saman við sama mánuð í fyrra, í öðru lagi að tekjufallið hafi leitt af sér rekstrarörðugleika en þar er einkum horft til stöðu eigin fjár og lausafjárstöðu og í þriðja lagi að rekstrarerfiðleikarnir séu tímabundnir og því hafi ekki verið til staðar varanlegur fjárhagsvandi áður en til tekjufallsins kom.

Greiðslufrestur á staðgreiðslu launagreiðenda hefur þau áhrif að fresta útgjöldum launagreiðenda sem nýta munu úrræðið og að ríkissjóður fær að sama skapi tekjur með töf. Ekki liggur fyrir á þessu stigi nánara mat á þeim fjárhæðum sem hér eru undir og munu þannig frestast yfir til ársins 2021. Gróflega má hins vegar áætla að staðgreiðsla þeirra skatta sem um ræðir, tekjuskatts, útsvars og tryggingagjalds, hjá launagreiðendum öðrum en opinberum aðilum gæti numið um 100 milljörðum samanlagt á þriggja mánaða tímabili. Vegna þeirra skilyrða sem gilda um heimild til frestunar mun þó verða um lægri fjárhæð að ræða sem frestast.

Í frumvarpinu er að finna töflu sem dregur þetta aðeins nánar fram. Við sjáum að samkvæmt grófu mati má áætla að staðgreiðslan sé um 100 milljarðar á þriggja mánaða tímabili, 57 milljarðar til ríkis og 43 milljarðar til sveitarfélaga. Ef við gefum okkur að helmingur fyrirtækja muni nýta sér úrræði væru það um 50 milljarðar af ríkishlutanum en 75% myndu þýða 75 milljarða.

Heimild til handa ráðherra að fella niður eða lækka fyrirframgreiðslu á tekjuskatti atvinnurekstrar er næst til umræðu. Í frumvarpinu er lögð til tímabundin heimild þess efnis að ráðherra geti fellt úr gildi eða lækkað fyrirframgreiðslu ársins 2020 upp í áætlaðan tekjuskatt rekstraraðila vegna ársins 2019. Með því frestast staðgreiðslan fram að álagningu í október nk.

Sérstakur barnabótaauki kemur hér næst. Lagt er til að við lög um tekjuskatt bætist ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um sérstakan barnabótaauka að fjárhæð 40.000 kr. með hverju barni innan 18 ára aldurs sé tekjuskattsstofn einstæðs foreldris og tekjuhærri hjóna eða sambúðaraðila undir 11.125.045 kr. við álagningu ársins 2020 og 20.000 kr. sé hann yfir þeim mörkum. Hér er um einskiptisaðgerð að ræða og er lagt til að Skatturinn ákvarði bæturnar við álagningu opinberra gjalda í júní 2020. Fjárhagsáhrif á ríkissjóð vegna aðgerðarinnar eru neikvæð um 3,1 milljarð.

Við ætlum síðan að fella niður samkvæmt frumvarpinu sérstakt tollafgreiðslugjald vegna skipa og flugvéla sem tollafgreiddar eru utan almenns afgreiðslutíma. Sú ákvörðun tekur til tímabilsins fram undir lok árs 2021. Almennur afgreiðslutími er frá kl. 7 á morgnana til kl. 18 í eftirmiðdaginn. Þessi aðgerð hefur áhrif á sértekjur tollyfirvalda þar sem um þjónustugjald er að ræða en sérstök gjaldtaka hefur verið fyrir utan almennan afgreiðslutíma og hún hefur skilað um 450 millj. kr. á ári ef horft er til ársins 2019. Má ætla að með breytingunni verði Skatturinn af um 600 millj. kr. tekjum samtals af tollafgreiðslugjöldum árin 2020 og 2021, en auðvitað er mikil óvissa um þessar tölur sem leiðir af eðli máls.

Gjalddögum aðflutningsgjalda á árinu 2020 hjá þeim aðilum sem njóta greiðslufrests á aðflutningsgjöldum verður dreift á tvo gjalddaga frá og með uppgjörstímabilinu mars–apríl 2020 og út árið með heimild til færslu alls innskatts viðkomandi tímabils þótt einungis hluti hans hafi verið greiddur. Tekjur af aðflutningsgjöldum og vörugjöldum á þessu ári lækka ekki vegna þeirrar breytingar að skipta upp hefðbundnum gjalddögum aðflutningsgjalda þar sem gert er ráð fyrir að frestaðar greiðslur beri almenna meðalvexti. Hins vegar mun innheimtan lækka á þessu ári sem nemur þeim hluta sem frestast fram yfir næstu áramót.

Heimilt verður að endurgreiða byggjendum og eigendum íbúðar- og frístundahúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna á byggingarstað við byggingu, endurbætur og viðhald vegna hönnunar eða eftirlits með þess háttar húsnæði. Heimildin er tímabundin til og með 31. desember 2020. Jafnframt er lagt til að á sama tímabili verði heimilt að endurgreiða eigendum eða leigjendum íbúðarhúsnæðis 100% þess virðisaukaskatts sem þeir hafa greitt af vinnu manna vegna heimilisaðstoðar eða reglulegrar umhirðu íbúðarhúsnæðis.

Aukin endurgreiðsla virðisaukaskatts úr 60% í 100% gerir seljendum þjónustu að öðru óbreyttu kleift að lækka verð í þeim viðskiptum sem um ræðir, ýmist við nýbyggingu eða endurbætur og viðhald á íbúðarhúsnæði eða frístundahúsnæði. Slík verðlækkun eykur eftirspurn eftir byggingarframkvæmdum og er því til þess fallin að sporna við minnkandi umsvifum í hagkerfinu og fækkun starfa af völdum kórónuveirunnar. Jákvæð fjárhagsleg áhrif eru á aðila í byggingarstarfsemi og þeim tengdu greinum sem um ræðir, hönnun og eftirliti með byggingu íbúðar- og frístundahúsnæðis. Á móti þessum jákvæðu áhrifum á byggingarstarfsemi tekur ríkissjóður á sig tekjutap. Auk þess að hækka endurgreiðsluhlutfallið í 100% er ráðgert að útvíkka endurgreiðsluheimildir til verkþátta við hönnun og eftirlit og enn fremur til frístundahúsnæðis. Að teknu tilliti til þess má áætla að endurgreiðslur gætu aukist um 8 milljarða kr. vegna framkvæmda á árinu 2020 en einhver hluti þeirra fjárhæðar mun koma fram í bókhaldi ríkissjóðs síðar þar sem sex ára frestur er gefinn til að skila umsókn um endurgreiðslu. Má ætla að með breytingunni verði ríkissjóður af um 8 milljarða tekjum samtals á þessu og næsta ári.

Gert er ráð fyrir því að á tímabilinu frá 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 skuli endurgreiða mannúðar- og líknarfélögum, íþróttafélögum, björgunarsveitum, landssamtökum björgunarsveita og slysavarnadeilda og einstökum félagseiningum sem starfa undir merkjum samtakanna virðisaukaskatt sem þau hafa greitt vegna vinnu manna sem innt er af hendi á tímabilinu 1. mars 2020 til og með 31. desember 2020 á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið eru í eigu þeirra. Á sama hátt skal endurgreiða virðisaukaskatt sem greiddur hefur verið af þjónustu vegna hönnunar eða eftirlits með byggingu á slíkum mannvirkjum.

Hér er um nýtt skref að ræða sem lengi hefur verið beðið eftir og er skref í átt að innleiðingu á aðgerðum sem lagðar voru til í skýrslu um þriðja geirann fyrir skemmstu. Ég verð að láta þess getið að þessi aðgerð einangrast á þessu stigi við endurgreiðslu vegna vinnu en mikið er eftir því kallað að efniskostnaður verði sömuleiðis settur undir sama hatt. Ég tel rétt að við skoðum leiðir til að verða við þeim kröfum. Það er ekki augljóst að endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna efniskaupa sé eina leiðin, heldur má sjá fyrir sér endurgreiðslufyrirkomulag í öðru formi, eins og t.d. með því að taka frá sérstaka fjárhæð á hverju ári til að úthluta til niðurgreiðslu vegna byggingarkostnaðar sem hægt er að sýna fram á að hafi fallið til.

Ég vil sömuleiðis segja varðandi gildistíma þessa ákvæðis að við látum það gilda út þetta ár, m.a. til að þrýsta á um að við endurmetum reynsluna, eða metum reynsluna ætti ég kannski frekar að segja, þegar líður fram á haustið og spyrjum okkur: Hvernig hefur úr þessu spilast? Hvernig hefur úrræðið gagnast? Er ástæða til að halda þessu áfram eða fara aðrar leiðir eftir atvikum? Þetta segi ég vegna þess að ég hef mikinn hug á því að standa þétt við bakið á þriðja geiranum með þeim úrræðum sem honum standa til boða. Hér stígum við fyrsta skrefið sem vonandi nýtist vel. Við getum tekið ákvörðun um að framlengja þetta úrræði eða gera frekari útvíkkanir á því og endurbætur síðar á þessu ári.

Gistináttaskatturinn verður felldur niður á tímabilinu 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2021. Frestun verður á gjalddaga vegna álagðs skatts frá janúar og út mars 2020. Tillögur frumvarpsins um niðurfellingu gistináttaskatts og frestun gjalddaga skattsins kemur til með að lækka tekjur ríkissjóðs. Í fjárlögum 2020 er gert ráð fyrir 1.280 milljónum í tekjur af gistináttaskatti og byggði sú áætlun á lítils háttar fækkun ferðamanna frá árinu 2019. Neikvæð áhrif kórónuveirunnar eru þegar farin að birtast í fækkun ferðamanna og ljóst að hún verður töluverð á árinu. Því ríkir talsverð óvissa um hversu mikill samdrátturinn verður. Fyrirséð er að tekjur af gistináttaskatti lækka verulega frá áætlun fjárlaga samhliða fækkun ferðamanna og hafa þær verið endurmetnar 820 milljónir á árinu 2020 og er það eflaust ekki síðasta endurmatið. Miðað við það mun niðurfelling gistináttaskattsins lækka tekjur ríkissjóðs á árinu 2020 um 630 milljónir og um 950 á næsta ári að viðbættum hliðaráhrifum á virðisaukaskatt. Hér er miðað við að fjöldi ferðamanna taki við sér á næsta ári. Frestun gjalddaga skattsins kemur ekki til með að hafa áhrif á skatttekjur en ríkissjóður gefur eftir tekjur af álagi þar sem gert er ráð fyrir að gjalddögum gistináttaskatts vegna uppgjörstímabilanna janúar og febrúar annars vegar og mars og apríl hins vegar á árinu 2020 verði frestað til 5. febrúar 2022. Af þessum sökum munu tekjur vegna uppgjörstímabilanna að fjárhæð 190 milljónir færast til ársins 2022.

Ég vil láta þess getið að í umræðum um niðurfellingu gistináttaskatts hefur þess reglulega verið getið að þetta hafi lítil áhrif þar sem hótelherbergin séu tóm, en hér erum við að taka ákvörðun sem horfir til næsta árs alls. Með þessu erum við að segja að við viljum standa með hótelunum og öðrum gististöðum og lýsa því strax yfir að skatturinn verður ekki til staðar ef aftur birtir til í sumar, í haust eða á næsta ári.

Í þessu frumvarpi er lagt til að allir sem eiga séreignarsparnað sem almennt er laus til útborgunar við 60 ára aldur, við örorku eða fráfall rétthafa geti tekið út allt að 12 millj. kr. fyrir staðgreiðslu á grundvelli umsóknar til vörsluaðila. Heimildin gildir frá 1. apríl 2020 til og með 31. desember 2020. Rökin fyrir þessari tímabundnu ráðstöfun eru að milda þann samdrátt sem ráðstöfunartekjur fjölskyldna kunna að verða fyrir, m.a. í kjölfar skertra tekna eða atvinnumissis, í þeim tilvikum sem þær eiga slíkan sparnað. Áhrif þessarar heimildar munu ráðast af umfangi útgreiðslna en um það ríkir töluverð óvissa. Rétt er að hafa í huga að verði fjármunirnir nýttir nú verða þeir ekki tiltækir síðar sem getur dregið úr ráðstöfunartekjum þessara heimila síðar á ævinni.

Tekjuskattur og útsvar er greitt af lífeyrisgreiðslum og gildir það einnig um úttekt séreignarsparnaðar samkvæmt þeirri tímabundnu heimild sem frumvarpið leggur til. Aðgerðin virkar því sem mótvægisaðgerð á tímum tekjufalls samhliða miklum útgjöldum ríkissjóðs. Gróflega má áætla að tekjuskattur af útgreiðslum gæti numið 2 milljörðum kr. og útsvar 1,5 milljörðum samanlagt á þessu og næsta ári.

Á árinu 2019 var lögfest lækkun á sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki sem í daglegu tali er kallaður bankaskattur. Sú ákvörðun lækkaði skattinn í fjórum jöfnum áföngum á árunum 2021–2024 þannig að hann endar í 0,145% frá og með álagningarárinu 2024. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að þessari lækkun verði flýtt þannig að strax á árinu 2021 verði gjaldhlutfallið fært niður í 0,145%. Flýting lækkunarinnar um þrjú ár hefur neikvæð áhrif á tekjur ríkissjóðs um 10,6 milljarða kr. árin 2021–2023 þar sem áhrifin eru mest á árið 2021. Þrátt fyrir það eru væntingar um að þessar breytingar hafi jákvæð áhrif á þjóðfélagið þar sem þær gera viðskiptabönkunum betur kleift að styðja við einstaklinga og atvinnulífið í þeirri óvissu sem ríkir nú.

Ég vil láta þess getið að ríkið mun á grundvelli gildandi eigendastefnu eiga samskipti við Bankasýsluna um að ekki ætti að gera arðgreiðslukröfur á ríkisbankana við þær aðstæður sem nú eru uppi. Allar aðrar aðgerðir okkar miða að því að hámarka virkni og nýtingu þess fjár sem bundið er í ríkisbönkunum og í bankakerfinu í heild. Af þessari ástæðu er að mínu mati rangt, á sama tíma og Seðlabankinn gerir stórtækar ráðstafanir til að auka svigrúmið í fjármálakerfinu og ríkissjóður er að bjóðast til að ganga í ábyrgðir fyrir brúarlánum, að vera með sérstakan bankaskatt í gildi sem tekur út bakdyramegin það sem er verið að bæta við með aðgerðunum.

Ég ætla næst að koma að ákvæði sem fjallar um sveitarfélögin. Í fyrsta lagi er lögð til heimild fyrir sveitarstjórnir sem heimilar að vikið sé tímabundið frá fjármálareglum sveitarstjórnarlaga á árunum 2020–2022. Í lögunum er annars vegar kveðið á um jafnvægisreglu sem felur í sér það skilyrði að við rekstur sveitarfélags skuli gæta að því að samanlögð heildarútgjöld til rekstrar A- og B-hluta í reikningsskilum séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en sem nemur samanlögðum reglulegum tekjum. Hins vegar er kveðið á um skuldareglu sem felur í sér að við rekstur sveitarfélaga skuli gæta að því að heildarskuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum séu ekki hærri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum sveitarfélagsins. Við þær aðstæður sem hafa skapast er mikilvægt að veita heimild til að víkja frá þessum reglum.

Í öðru lagi er lagt til að gjaldendum fasteignaskatta sé heimilt að fresta gjalddögum með sama hætti og með sömu skilyrðum og málsmeðferðarreglum og kveðið er á um í 1.–4. og 8. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VI í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Er í ákvæðinu þannig gert ráð fyrir því að sveitarfélögum sé skylt að verða við frestun gjalddaga uppfylli gjaldandi skilyrði frumvarpsins.

Stefnt er að því að mæla fyrir um að í heimildagrein fjáraukalaga fyrir árið 2020 sé fært inn ákvæði um að ráðherra sé heimilt að semja við Seðlabanka Íslands um að færa lánastofnunum aukin úrræði til að veita viðbótarlánafyrirgreiðslur til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Gert er ráð fyrir því að Seðlabanki Íslands veiti ábyrgðir til lánastofnana sem þær nýti til að veita viðbótarlán til viðskiptavina sinna sem uppfylla sett skilyrði. Í samræmi við þessa heimild er gert ráð fyrir því að Seðlabanki Íslands veiti lánastofnunum stuðning í formi lánalína eða ábyrgða á veitt viðbótarlán til viðskiptavina sinna sem uppfylla skilyrðin. Um væri að ræða sértækt úrræði sem mun ekki falla undir löggjöf um ríkisábyrgðir, enda væru ábyrgðir ekki veittar beint af ríkissjóði. Til að taka af allan vafa um að lög um ríkisábyrgðir eigi ekki við ábyrgðarskuldbindingar sem þessar er lagt til að við þau lög bætist nýtt bráðabirgðaákvæði um að ríkissjóði sé heimilt að gera slíkan samning við Seðlabankann, enda eiga þau lög almennt ekki að gilda þegar markmiðið er að veita almennan efnahagslegan stuðning til fyrirtækjanna. Fjárhagslegt umfang slíkrar ábyrgðarveitingar gagnvart Seðlabankanum yrði jafnframt afmarkað í heimildarákvæði fjáraukalaga.

Lagt er til að við lög um Seðlabanka Íslands verði bætt ákvæði til bráðabirgða þess efnis að bankanum verði veitt fullnægjandi lagastoð til að semja við ríkissjóð um að stofnunin veiti lánastofnunum ábyrgðir til að þau geti veitt viðbótarlánafyrirgreiðslur til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldursins, enda ábyrgist ríkissjóður skaðleysi bankans af þeirri efnahagsráðstöfun. Gert er ráð fyrir því að Seðlabanki Íslands veiti lánastofnunum stuðning í formi ábyrgða og veitt viðbótarlán til viðskiptavina sinna sem uppfylla sett skilyrði. Í samningi við ríkissjóð verða skilgreind markmið og skilyrði þeirrar fyrirgreiðslu sem veitt yrði.

Þá að mati á áhrifum tillagna frumvarpsins. Tekjuáhrif af áformunum eru áætluð samanlagt neikvæð um rúma 8,4 milljarða á þessu ári, tæpa 8 milljarða á næsta ári, 3,6 milljarða árið 2022 og 1.900 milljónir árið 2023. Heildaráhrifin eru þannig á þessu ári rúmir 8,4 milljarðar, tæpir 8 á næsta ári o.s.frv. Hér verðum við auðvitað að hafa í huga að áhrifin á ríkissjóð af því sem nú gengur yfir birtast okkur víða. Í gegnum sjálfvirka sveiflujöfnun munum við taka á okkur mjög mikinn skell. Það stefndi fyrir í nokkurn halla á ríkissjóði og augljóst að hann mun verða umtalsverður. Með þessum sjálfvirka hætti er ríkissjóður að milda niðursveifluna. Ríkissjóður tekur meira til sín þegar uppsveiflan gengur yfir að jafnaði. Mér finnst ástæða til að geta þess hér að sveiflujöfnun er ívið meiri hér en víðast hvar annars staðar. Þess vegna koma fram mjög mikil áhrif á ríkissjóð vegna sveiflujöfnunar.

Ég gæti síðan talið upp önnur áhrif af aðgerðum stjórnvalda eins og það sem við sjáum fyrir að fari í hlutabótakerfið, fjárfestingar sem við ætlum að ræða hér í fjáraukalagafrumvarpi, sem eru ný útgjöld á þessu ári upp á 15 milljarða, að ógleymdu því sem opinber fyrirtæki fara í og svo eru það ætluð áhrif af brúarlánunum sem mætti bæta við. Ég vek athygli á þessu þegar rætt er um mat á áhrifum þessa frumvarps í samhengi aðgerðanna í heild.

Virðulegi forseti. Ég hef hér farið yfir öll helstu atriði þessa máls og legg til að þessu sögðu að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.