150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil svör hæstv. ráðherra þannig að ekki standi til að hækka atvinnuleysisbæturnar eða koma til móts við fólk sem þarf að reka sín heimili líkt og fyrirtækin standa undir ákveðnum rekstri, húsaleigu, hita og rafmagni o.s.frv. Það er augljóst mál að þegar fjöldi manns í ákveðnum sveitarfélögum þarf að lifa á tæpum 290.000 kr. á mánuði skapast þar mikil vandræði og sveitarfélögin þurfa að hlaupa undir bagga, sveitarfélög sem nú þegar verða fyrir tekjufalli og auknum kostnaði vegna ástandsins. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn að hækka atvinnuleysisbæturnar, a.m.k. að lágmarkstaxta sem er 335.000 kr., eða verða það 1. apríl.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um gjalddaga virðisaukaskatts sem er 5. apríl. Ég hef líka áhyggjur af fyrirtækjum sem þurfa að standa í skilum þá, með háum upphæðum jafnvel, og þess er ekki getið í þessum bandormi að gefa eigi frest þó ekki væri nema af hluta þeirra gjalda. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það komi til greina.