150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:52]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð bara að segja að ég er því miður algjörlega ósammála hæstv. fjármálaráðherra í þessu efni. Þetta snýst ekki bara um að fara að rústa almannatryggingakerfinu, þetta snýst um sanngirni. Þetta snýst um að við verðum að átta okkur á því að þeir sem eru búnir að lifa lengi á 221.000 kr. útborgað eru viðkvæmastir fyrir þessari veiru. Þetta er fólkið sem hefur ekki getað veitt sér almennilegan mat. Það vita allir að það er erfitt að lifa eingöngu á hrísgrjónum og hafragraut. Þetta fólk kaupir sér ekki lýsi, vítamín og annað sem það þarf nauðsynlega á að halda. Það er búið að sýna fram á að það er fyrirbyggjandi að taka inn lýsi, C-vítamín og D-vítamín. Þetta fólk hefur ekki efni á því. Það hefur rétt efni á að halda húsnæði og síðan fer það til hjálparstofnana eftir mat. Þetta er fólkið sem þarf á hjálp að halda og við eigum að hjálpa því alveg eins og öllum hinum. Þetta fólk er ekkert undanþegið atvinnuleysi, við verðum að hugsa (Forseti hringir.) sérstaklega um þennan hóp vegna þess að hann er viðkvæmastur.