150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Víst er um að þetta er viðkvæmur hópur, en ég er þeirrar skoðunar að þetta sé dálítið önnur umræða en við erum stödd í akkúrat núna. Ef hv. þingmaður fer inn á vefinn tr.is og slær inn forsendur um einstæðing með tvö börn sem hefur í kringum 35 ára aldurinn orðið öryrki og hefur engar aðrar tekjur en kannski 10.000 kr. frá lífeyrissjóði vegna örorkunnar teiknast upp sú mynd af stuðningi sem við ættum að vera að ræða hér. Sá stuðningur sem slíkur einstaklingur hefur sem hefur engar atvinnutekjur en er með tvö börn á heimili og býr einn og fær meðlag með börnunum er ekki mjög frábrugðinn stöðu þess fólks sem er nýbúið að semja um kjör sín á vinnumarkaði. Stuðningurinn er ekki síðri en gerist með það fólk sem við erum að grípa núna í hlutastarfaleiðinni. Hins vegar eru einstaklingar í almannatryggingakerfinu (Forseti hringir.) sem skrapa þar botninn og er ástæða til að hafa sérstakar áhyggjur af. Heilt yfir gegnir almannatryggingakerfið okkar gríðarlega mikilvægu hlutverki.