150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:55]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Það er tvennt sem ég vildi koma inn á í ræðu hans sem lýtur að þessum aðgerðum, þátttöku bankanna í þessum björgunaraðgerðum og ríkisábyrgð á nýjum útlánum. Í mínum huga er verið að gefa verulega eftir gegn bönkunum sem hafa verið með háar arðgreiðslur og kaup á eigin bréfum og það er spurning hvort eigi að gera þá kröfu á einkabankana að þeir skili því til baka, þ.e. að eigið fé verði til staðar sem væri hægt að nota til að mæta þessum áföllum.

Nú eru bankastjórar með 3–5 milljónir í laun og það er spurning hvort það verði óbreytt. Síðan samþykkti einn bankinn, Arion banki að mig minnir, kaupréttaráætlun á síðasta aðalfundi. Bankaskatturinn er felldur niður og þá spyr maður: Hvað ætla hluthafarnir að gera? Hvernig koma þeir að rekstri bankanna? Munu þeir leggja fram nýtt eigið fé? Hvernig verður tryggt að allir bankarnir taki þátt í þessum björgunaraðgerðum óháð eignarhaldi? Það er mjög mikilvægt. (Forseti hringir.) Einn banki, Arion banki, hefur lýst því yfir að hann hyggist minnka útlánasafn sitt verulega sem myndi augljóslega vinna gegn þessari áætlun. Hvernig er tryggt að bankarnir taki þátt í þessum björgunaraðgerðum, hæstv. ráðherra, óháð eignarhaldi?