150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér kemur hv. þingmaður töluvert inn á stöðu hinna stóru og kerfislega mikilvægu banka og eigið fé þeirra. Ég held að það sé alveg skýrt að eiginfjárstaða þeirra er gríðarlega sterk, sögulega og í alþjóðlegum samanburði, m.a. vegna þess hvernig við höfum lagt kröfur á bankana um að þeir hefðu mikið eigið fé þegar við fórum í gegnum góðærið. Nú er svigrúm til að losa aðeins um ólarnar sem eftirlitið hefur á fjármálakerfinu og leyfa þeim að hreyfa sig meira og láta eigið fé sitt fara í vinnslu. Ég held að ríkisbankarnir séu ágætlega settir í samanburði við Arion banka hvað þetta allt saman snertir.

Varðandi bankaskattinn munum við ekki gera kröfu um útgreiðslu arðs en bankaskatturinn hefur ekki beint verið hvetjandi fyrir banka til að stækka. Hér var komið inn á það að menn vildu minnka efnahagsreikning sinn. Við höfum verið með þennan skatt beinlínis á skuldirnar, skatturinn var þeim mun hærri sem efnahagsreikningurinn var stærri og skuldirnar meiri.