150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra. Ég verð að segja að ég hef áhyggjur. Til dæmis hefur Arion banki minnkað útlánasafn sitt og hefur lýst því yfir að hann ætli að minnka það verulega og það mun að sjálfsögðu vinna gegn þessari áætlun. Þetta er nokkuð sem þarf að fara yfir.

Varðandi ríkisábyrgðina á nýjum útlánum og skilmálana í þeim efnum er þetta að mínum dómi sérkafli sem á eftir að verða allt of flókinn og auka hættu á miklum hagsmunaárekstrum fyrir utan að allt gagnsæi skortir. Ég tel nauðsynlegt að einfalda þetta ferli og ég beini þeim tilmælum mínum til ráðherra og nefndarinnar að það verði gert.

Ríkisábyrgðin virðist að mínu mati ekki vera mjög stórt skref í þessum fordæmalausu aðstæðum og ég spyr: Hvernig verður þessum ábyrgðum háttað? Ég bið hæstv. ráðherra að fara yfir það. Er gert ráð fyrir því að um lán gegn veði verði að ræða, að veðið skiptist til jafns milli bankanna og ríkisins (Forseti hringir.) eða heldur bankinn því alfarið fyrir sig? Hversu löng verður ríkisábyrgðin?