150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni þegar hann segir að kerfið megi ekki verða of flókið. Þá má ekki vera of tafsamt að fá fyrirgreiðslu. Leikreglurnar þurfa að vera mjög skýrar þannig að viðskiptabanki þurfi ekki að velkjast í vafa um að skilyrði séu uppfyllt þegar reglurnar eiga að gera ráð fyrir því. Ella er hætta á því að ekki fáist svör sem er eitt það versta sem gerist við þessar aðstæður.

Ég skal ekki segja með hagsmunaárekstra. Það kann að vera að það sé ástæða til að hafa áhyggjur af þeim og ég hvet nefndina til að fara ofan í það.

Um skilyrðin vil ég segja að við gerum lægri kröfur en almennt er á Norðurlöndunum þar sem talað er um 50% tekjufall. Við segjum 40% tekjufall. Það er rýmra aðgengi að fyrirgreiðslu þó að ríkisábyrgðin sé upp á 50% en ekki 70% eins og víða.

Ég geri ráð fyrir hlutfallslegri ábyrgð eða svokallaðri pro rata ábyrgð þannig að ef lán á endanum innheimtist ekki deila aðilarnir, viðskiptabankinn og ríkissjóður, (Forseti hringir.) með sér því tjóni. Við erum að tala um ríkisábyrgð sem yrði í gildi í 18 mánuði.