150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[12:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum að skoða virðisaukaskattinn. Menn eru væntanlega að horfa til gjalddagans 5. apríl. Virðisaukaskatturinn er dálítið sérstakur að því leyti til að fyrirtækin eru í raun í hlutverki innheimtumanns hans fyrir ríkissjóð. Sú nettun á inn- og útskatti sem á sér stað á ólíkum uppgjörstímabilum er frábrugðin öðrum sköttum sem við höfum verið að ræða um að fresta. Ég hef óskað eftir því sérstaklega að við skoðum með hvaða hætti hægt væri að liðka fyrir fyrirtækjum sem eru í lausafjárskorti og greiðslufrestir vegna virðisaukaskatts gætu hjálpað við þær aðstæður. Í raun hef ég ekki annað um þetta mál að segja á þessu stigi en að við erum að skoða þetta og það kemur vel til greina að stíga frekari skref varðandi virðisaukaskattinn.