150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[12:03]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og fagna því að þetta sé til skoðunar. Ég held að það hljóti að þurfa að skoða þetta með almennari hætti. Hins vegar má alveg hafa í huga að auðvitað er staðgreiðslan líka eins konar vörsluskattur að því leyti til að þar draga fyrirtækin af og halda eftir staðgreiðslu af launum og standa svo skil á því til ríkissjóðs. Þar erum við að veita greiðslufrest. Ég held að virðisaukaskatturinn og raunar tollkrítin geti líka hæglega fallið undir þessar ráðstafanir.

Í öðru lagi hef ég áhyggjur af flækjustiginu í kringum 1. gr. í veittum greiðslufresti á staðgreiðslunni. Þar er skilgreind ákveðin eiginfjárstaða við árslok 2019 og fæst fyrirtæki eru með ársreikninga í höndunum fyrir það tímabil. Fyrirtækin eru svolítið skilin eftir með áhættuna af því að meti ríkisskattstjóri það svo á seinni stigum að þau hafi ekki uppfyllt skilyrði greiðslufrests beri þeim að endurgreiða með álagi. Það er væntanlega einhvers konar dauðadómur yfir viðkomandi fyrirtækjum á þeim tímapunkti. (Forseti hringir.) Af hverju var farið í svona stíf og flókin viðmið í bráðaaðgerðum fyrir næstum þremur mánuðum? Er ekki réttara að við notum breiðar strokur hér og tökum frekar áhættu með atvinnulífinu?