150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[12:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurt er: Af hverju? Svarið við því er: Vegna þess að við viljum ekki að fyrirtæki sem ekki þurfa á því að halda slái lán hjá ríkissjóði núna. Eftir því sem meira verður um það, þeim mun þyngra verður fyrir ríkissjóð að hjálpa þeim sem eru í þörf. Ég er ekki alveg sammála því að þetta sé flókið. Við segjum: Við ætlum ekki að leggja mat á þetta fyrir fyrirtækin. Við ætlum ekki að fara yfir hverja umsókn. Við ætlum að leggja það í hendur fyrirtækjanna að meta stöðu sína á grundvelli þessara skilmála og menn eru frjálsir að því að fresta greiðslum. Ef í ljós kemur að menn voru ekki í þeirri þörf sem skilgreind hefur verið taka menn afleiðingunum af því.

Það er álitamál hvort einhver íþyngjandi viðurlög eiga að koma til þegar menn liggja á mörkunum og voru samkvæmt öllum eðlilegum viðmiðum í góðri trú. Mér fyndist að það ætti ekki að leiða til þess að menn fengju á sig einhver refsitengd viðurlög. Þetta er tilraun til að gera þetta hnökralaust, að þykjast ekki geta farið yfir allar umsóknir heldur birta skilyrðin og segja við fyrirtækin: Við samþykkjum frestun á þremur gjalddögum á þessu ári og við munum veita viðbótarfresti ef þörf krefur fram yfir ferðasumarið 2021. Mörkin verða þó að liggja einhvers staðar vegna þess að reynslan sýnir að ef til boða (Forseti hringir.) standa ókeypis lán hjá ríkissjóði taka þau gjarnan líka þeir sem ekki þurfa á þeim að halda.