150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[12:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að segja að ég fagna því að komnar eru fram aðgerðir. Þó að mér finnist þær að einhverju leyti takmarkaðar eru þær margar ágætar í þessum bandormi. Hlutaatvinnuleysisbæturnar sem við afgreiddum hér í síðustu viku eru virkilega mikilvægar og eru til þess að halda ráðningarsambandi á milli vinnandi fólks og atvinnurekenda og reyna einhvern veginn að fleyta sér yfir það ástand sem nú er.

Ég hef hins vegar sagt það, síðast í óundirbúnum fyrirspurnum við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, að ég hef verulegar áhyggjur af þeim sem verða ekki og eru ekki nú þegar með neinn ráðningarsamning heldur eru bara á atvinnuleysisbótum. Þeir lenda fyrstu þrjá mánuðina í 70% af sínum tekjum en fara hæst upp í 456.000 kr. á mánuði og eftir þrjá mánuði á 290.000 kr. á mánuði. Það er augljóst að heimili með slíkar tekjur getur ekki rekið sig og það þarf að taka tillit til þessa hóps. Það er ekkert rosalega há upphæð, það er ekki sú upphæð að ríkið geti ekki ráðið við það en hins vegar væri það til að fleyta heimilum í miklum rekstrarerfiðleikum, svo ég noti orðfæri sem nýtt er um fyrirtæki, yfir þetta erfiða tímabil. Ég varð fyrir vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra áðan þegar hann tók ekki undir mikilvægi þess að hækka atvinnuleysisbæturnar úr 290.000 kr. að lágmarkslaunum sem verða 1. apríl 335.000 kr. Ég vona að það verði endurskoðað og að þessi hópur verði skoðaður sérstaklega. Það er hætt við því að á svæðum þar sem atvinnuleysi er mikið — t.d. er atvinnuleysi í Reykjanesbæ 11% nú þegar, í dag, og hlutaatvinnuleysisbæturnar koma ekkert að gagni hjá því fólki — muni reyna á félagsþjónustuna, í þeim sveitarfélögum þar sem svona er ástatt. Það er skylda ríkisstjórnarinnar að líta til þessa fólks og aðstæðna þess þegar slík dýfa gengur yfir sem við erum að ganga í gegnum.

Frú forseti. Varðandi bandorminn eru 1. og 2. gr. um frestun á staðgreiðslu opinberra gjalda og tryggingagjalds og það er bara mjög fínt. Ég hef þó áhyggjur af ferðaþjónustunni sérstaklega af því að ég held að hún muni þurfa sértæka aðstoð. Ég hef sérstaklega áhyggjur af fyrirtækjum sem fara í þrot í þessu ástandi eða eru látin fara í þrot í þessu ástandi, lykilfyrirtækjum sem geta síðan ekki brugðist hratt og örugglega við þegar ferðaþjónustan fer aftur af stað og þá getum við ekki ekki tekið á móti eins mörgum gestum og við hefðum gjarnan viljað. Ég skora á ríkisstjórnina að velta fyrir sér sértækum aðgerðum sem gætu beinst að hótelum, gistiheimilum og jafnvel fluginu og ræða við Eftirlitsstofnun EFTA um hvernig megi beita slíkum aðgerðum. Það er ekkert komið að þeim, ég tek undir það með hæstv. ráðherra, en það er mikilvægt að teikna upp þessar sviðsmyndir.

3. gr. er svo um að fyrirtæki þurfi ekki að greiða fyrirframgreiðslu árið 2020 vegna tekna árið 2019 og það er afskaplega gott og mikilvægt, enda er tekjufall hjá svo mörgum að ekki væri sanngjarnt að miða við tekjur frá því í fyrra. Í b-lið er síðan talað um barnabótaaukann og mér finnst þetta virkilega góð hugmynd vegna þess að það þarf að mæta barnafólki sérstaklega við þessar aðstæður. Ég hefði þó viljað hafa barnabótaaukann hærri og við munum fara yfir það í efnahags- og viðskiptanefnd.

Í 4. gr. er fjallað um tollalög og einu athugasemdirnar sem ég hef við þá grein er að ákvæði í a-lið beinist líka að skipum. Ég skil alveg með flugið en af hverju þarf að beita þessum ákvæðum á skip? Ég geri ráð fyrr að við förum betur yfir þetta í nefndinni.

Í 5. gr. er ákvæði um Allir vinna. Það er ákvæði sem við þekkjum vel og var nýtt í hruninu með góðum árangri. Það er útvíkkað þarna og mér líst vel á flestar þær aðgerðir. Þó er nauðsynlegt að skoða í nefndinni hvort það er fyrir séð að markmið með niðurfellingu virðisaukaskatts á heimilisaðstoð og umhirðu náist. Markmiðið er að veita sértækt úrræði fyrir heimili sem þurfa á aðstoð að halda og það er mikilvægt að skoða hvaða heimili það eru sem nýta sér heimilisaðstoð og skoða hvort þetta sé forgangsaðgerð í þeirri stöðu sem við erum núna í.

Það á að fella niður gistináttagjaldið og það á að gilda í tvö ár. Ég veit ekki hversu mikilvæg sú aðgerð er en ég geri svo sem ekki athugasemdir við hana í þessari stöðu.

Síðan er það útgreiðsla á séreignarsparnaði sem er í 7. gr. Ég vara við því að fólk sé að taka út að óþörfu séreignarsparnaðinn sinn sem hugsaður er til efri ára. Það getur auðvitað komið sér vel í neyðarástandi, t.d. við rekstur heimilis, og þá er sjálfsagt að nýta sér þetta ákvæði en ég hvet fólk til að hugsa sig um áður en að framtíðartekjur eru nýttar. Á móti kemur að þetta ákvæði verður til þess að bæði ríki og sveitarfélög fá auknar tekjur og það má vera að þess vegna sé það inni í bandorminum.

Síðan vil ég tala um 9. gr. þar sem á að flýta niðurfellingu bankaskatts. Við í Samfylkingunni höfum sagt að ekki sé tímabært að fella niður bankaskattinn á meðan innviðaskuldin hefur ekki verið greidd. Hér er verið að liðka til með ýmsum hætti þannig að bankarnir verði í stakk búnir til að mæta fyrirtækjunum. Það er auðvitað mikilvægt að bankarnir hafi bolmagn til þess og að fyrirtæki verði ekki keyrð í þrot af bönkunum við þessar aðstæður. Sveiflujöfnunaraukinn er tekinn af. Það eru brúarlán þar sem áhættan er tekin af ríkinu með bönkunum af útlánum. Við þurfum að fara yfir það í nefndinni hvort það sé hliðstæð áhætta bæði hjá viðskiptabönkunum og ríkinu, hvort áhættan sé hliðstæð eða hvort hún sé eitthvað bjöguð. Síðan er lækkun á bankaskattinum. Ég ítreka að það er mikilvægt að sjá til þess að bankarnir hafi bolmagn til að gera það sem gera þarf í þessari stöðu.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra lýsti hér yfir að eigendur Íslandsbanka og Landsbanka muni ekki gera kröfu til arðgreiðslu. Það er mjög mikilvægt að sú krafa sé gerð til Arion banka líka. Ég veit ekki hvernig hægt er að gera það, ég geri ráð fyrir að við skoðum það í báðum nefndunum, en auðvitað væri algjörlega óþolandi við þessar aðstæður ef arðgreiðslur yrðu jafnvel hærri. Það má nánast gera kröfur yfir ákveðin tímabil um að þær yrðu í algjöru lágmarki, ég tala nú ekki um að bónusgreiðslur við þessar aðstæður eru ekki ásættanlegar. Nefndirnar þurfa auðvitað að skoða hvernig hægt er að gera þessar kröfur.

Í 10. gr. eru skulda- og tekjureglurnar teknar úr sambandi á árunum 2020–2022 og ég held að það sé nauðsynlegt. Það er bara sjálfsagt mál.

11. gr. snýr líka að sveitarfélögunum þar sem þeim er gefinn möguleiki til að mæta fyrirtækjum með annaðhvort frestun á greiðslu fasteignaskatts eða einhverjum breytingum þar á. Mér finnst mikilvægt að þetta gildi líka um fólkið sem þarf að reka heimili sín á skertum tekjum eða á strípuðum atvinnuleysisbótum, að þar sé komið til móts við heimilin varðandi fasteignaskatt og líka með húsaleigubótum til móts við þau sem þurfa að greiða leigu. Þetta mun auðvitað hafa áhrif á tekjur og útgjöld sveitarfélaganna og í framhaldinu af þessu öllu saman þarf að skoða stöðu sveitarfélaganna hvað þetta varðar. Sveitarfélögin sjá um nærþjónustuna, sjá um rekstur leikskóla og grunnskóla, sjá um þjónustu við fatlaða og aldraða og þetta þyngist á þessum tíma. Á sama tíma lækka tekjurnar þannig að huga þarf að þessu öllu í samhengi. Ég trúi að þegar upp er staðið verði gerður upp sá reikningur sem fellur þarna á opinbera aðila, bæði ríki og sveitarfélög.

Í 12. og 13. gr. er fjallað um brúarlánin og mér líst mjög vel á þá hugmynd. Eins og ég sagði áðan þarf samt að fara yfir ábyrgðirnar, hvort þær séu hliðstæðar hjá bönkunum og ríkinu.

Frú forseti. Lokaniðurstaðan eftir þessa hraðsoðnu yfirferð yfir bandorminn er sú að þetta sé ekki nóg. Það verður að beina aðgerðum sérstaklega að ferðaþjónustunni og heimilum þeirra sem eru í vanda. Það þarf að hækka barnabótaaukann og hækka atvinnuleysisbætur. Það þarf að gæta að sveitarfélögunum sem verða fyrir tekjutapi og auknum kostnaði. Við þurfum að gefa möguleika á frestun á virðisaukaskatti þar sem gjalddagi er 5. apríl og ég vona að það verði skoðað sérstaklega. Þó að virðisaukaskatturinn sé með öðrum hætti en aðrir skattar og önnur gjöld hlýtur að vera hægt að koma til móts við fólk og fyrirtæki með einhverjum hætti þarna og það þarf að gera kröfur til fyrirtækja sem njóta aðstoðar og banka sem fá aukið lausafé og lækkun skatta um að ekki verði greiddur út arður eða bónusgreiðslur í nokkru formi.

Frú forseti. Þetta eru náttúrlega afskaplega óvanalegir tímar og við getum allt eins búist við því að þingið verði sent heim á einhverjum tímapunkti. Á meðan svo er ekki þurfum við þingmenn að gæta að lýðræðinu og vinna vel þessa vikuna, með það þá í huga að gera breytingartillögur við þennan bandorm sem við teljum að séu nauðsynlegar eða setja í yfirlýsingu sem vonandi næst samkomulag um þvert á flokka um hvað þurfi að skoða betur í nánustu framtíð. Við þurfum að fara út í aðgerðir eins og hér hafa komið fram til skamms tíma en við verðum líka að huga að framtíðinni. Þar verðum við að læra af þessari reynslu.

Stóri lærdómurinn er kominn nú þegar en við eigum örugglega eftir að fara í gegnum þá fleiri á næstu vikum og mánuðum. Stóri lærdómurinn er sá að við þurfum fjölbreyttara atvinnulíf á Íslandi. Við þurfum í framtíðinni að renna fleiri stoðum undir atvinnulífið og það þýðir að við þurfum að leggja aukið fjármagn í nýsköpun, þróun og menntakerfið. Það hlýtur að vera forgangsmál í framtíðinni þegar við erum að byggja okkur upp eftir þessa dýfu og síðast en ekki síst þarf heilbrigðiskerfið að vera sterkt og við verðum að styrkja það enn frekar. Það varðar þjóðaröryggi. Það er í framlínu í vörnum okkar þegar vá steðjar að eins og núna. Við þurfum að passa að það verði sterkt á öllum tímum til að mæta hvers lags áföllum.

Frú forseti. Ég hef lokið máli mínu.