150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[12:46]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Við ræðum hér aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Þessar tillögur hafa verið í smíðum í fjármála- og efnahagsráðuneytinu um nokkurn tíma og voru fyrst kynntar á laugardaginn, fyrst fyrir fulltrúum stjórnarandstöðu á Alþingi og svo tveimur klukkustundum síðar fyrir almenningi á blaðamannafundi. Tillögurnar komu fyrir Alþingi fullmótaðar og tilbúnar til afgreiðslu að því er virtist. Fyrir viku var haldinn fundur með formönnum allra flokka á Alþingi þar sem rætt var um aðgerðir til að mæta áhrifum Covid-19 á íslenskt samfélag, á íslenskan efnahag. Stuttu eftir að fundinum lauk komu þær upplýsingar út í fjölmiðlum að ríkisstjórnin væri að undirbúa svokallaðan risapakka til að bjarga íslensku efnahagslífi. Það kom okkur á óvart því að fulltrúi okkar var nýkominn af fundi þar sem látið var eins og enginn pakki væri í vinnslu og allt væri enn þá á frumstigi. Alla þá viku reyndu fulltrúar minnihlutaflokkanna svo að fá meiri hlutann til samráðs sem ríkisstjórnin hafði sagt að hún vildi, en allt kom fyrir ekki. Við fengum tillögurnar fullmótaðar í hendurnar tveimur tímum áður en þær urðu opinberar á blaðamannafundi.

Ríkisstjórnin ræður náttúrlega hvort hún starfar svona en það er farsælla þegar hún hefur boðað samráð og samstarf að starfa þannig. Annað grefur algjörlega að óþörfu undan trausti á ferlinu. Traustið er hins vegar nauðsynlegt til að komast sem farsællegast í gegnum þessar hremmingar. Ég vona því að samráð og samstarf verði betra í þinglegri meðferð þessara mála. Það er margt gott í þeim en ýmislegt má færa til betri vegar. Ég vona að ríkisstjórnarflokkarnir hlusti og að við getum unnið saman á þessum erfiðu tímum.

Okkur Pírötum verður tíðrætt um gegnsæi og það er af góðri ástæðu. Gegnsæi í stjórnsýslu gerir hana faglegri og farsælli ásamt því að auka traust á þeim ákvörðunum sem á endanum eru teknar. Gegnsæi er ekki bara mikilvægt í almennu árferði. Það skiptir enn meira máli þegar áföll og erfiðleikar dynja á. Ef gegnsæi skortir og almenningur verður ósáttur við aðgerðir stjórnvalda fer traustið samstundis. Hrunið ætti að vera okkur í fersku minni. Góð samvinna allra kjörinna fulltrúa skiptir því höfuðmáli til að skapa megi sátt um þær aðgerðir sem verður að ráðast í. Það er því miður að þingmönnum minni hlutans sem bera ábyrgð á því að vinna málið á Alþingi hefur verið haldið frá þessu ferli. Með því að tryggja aðkomu allra kjörinna fulltrúa er fulltrúalýðræðið virkjað og tryggir þannig breiðari sátt um þær aðgerðir sem farið er í. Þegar allir eiga kjörna fulltrúa við borðið er miklu líklegra að almenn sátt ríki um þessar aðgerðir. Við skuldum landsmönnum öllum að vinna vel saman á þessum erfiðu og óljósu tímum. Þetta er lykilatriði.

Almennt um aðgerðapakkann vil ég segja að það er gott að ríkissjóður grípi til aðgerða og komi með viðbrögð við þeim efnahagslegu erfiðleikum sem eru fram undan. Það má þakka fyrir þau skilaboð að það eigi að tryggja afkomu fólksins í landinu. Það er jákvætt að til stendur að verja okkar mikilvægustu félagslegu innviði í hinum fyrirséðu efnahagsþrengingum og að ríkisstjórnin hugi að viðspyrnu fyrir efnahagslífið. Heildarkostnaður við tillögur ríkisstjórnarinnar var á umræddum blaðamannafundi sagður vera 230 milljarðar kr. og þar með samkvæmt ríkisstjórninni stærsta efnahagsaðgerð Íslandssögunnar. Tæpir 60 milljarðar eiga að koma beint úr ríkissjóði og almenningi og fyrirtækjum í landinu verður heimilað að taka 170 milljarða lán til framtíðar eða fresta greiðslum, taka út sinn eigin séreignarsparnað og ýmislegt í þeim dúr.

Kostnaður við þessar aðgerðir, ef miðað er við fullan kostnað, 230 milljarða, ekki bara þann hluta sem kemur úr ríkissjóði, er sagður vera 7,8% af landsframleiðslu. Sé þessi tala borin saman við nágrannaríki okkar má sjá að talsvert vantar upp á að við séum í jafnvægi við þau hvað varðar útgjöld miðað við landsframleiðslu. Hin svokallaða basúka Þýskalands, þ.e. lánveitingar úr þýska samfélagsbankanum KfW, telur yfir 17% af landsframleiðslu, þ.e. allt að 600 milljörðum evra. Frakkland hefur tilkynnt um ríkisábyrgð á lánveitingum til fyrirtækja sem telja yfir 12% af landsframleiðslu til viðbótar við þann 50 milljarða evrupakka sem aðgerðum er beint til einstaklinga. Sambærilegur lánapakki Spánar telur um 16% af landsframleiðslu. Seðlabanki Evrópu hefur kynnt svo aðgerðir fyrir evrusvæðið sem telja nær 1.000 milljörðum evra.

Það að setja þessa svonefndu stærstu efnahagsaðgerð Íslandssögunnar í sögulegt og alþjóðlegt samhengi fær mann til að hugsa hvort hún sé raunverulega nóg. Ríkisstjórnin hefur sagt að hún viti það ekki og muni bregðast við ef í ljós kemur að það sé ekki nóg. Að sjálfsögðu er rétt að leyfa henni að njóta vafans hvað það varðar, en það aðstoðar og styður traust ef meiri samvinna væri við þá sem þurfa að vinna þetta mál á þingi. Það er mjög erfitt að gera það þegar maður fær hluti hratt í fangið án þess að hafa haft tækifæri til að vinna að þeim á fyrri stigum. Ég ítreka það.

Hagkerfi okkar er þegar farið að hægja verulega á sér og má sjá þess merki víða. Ef ekki er stigið nógu mikið á bensíngjöfina gæti það stöðvast of mikið. Staðreyndin er nefnilega sú að Ísland er berskjaldað fyrir efnahagsáföllum eins og þessum. Ferðamannaiðnaðurinn stendur að stórum hluta undir þjóðartekjum Íslendinga og svo virðist sem við höfum, annað hrun í röð, sett eggin okkar í of fáar körfur, fyrst 2008 í körfu bankanna og svo 2020 í körfu ferðaþjónustunnar. Það er fyrirséð að við þurfum að spyrna fast við, sérstaklega út af þeirri óvissu sem fylgir því að við vitum ekki hvenær sóttvarnaaðgerðum lýkur.

Það er alls óvíst hvort og þá hvenær ferðaþjónustan mun taka við sér. Einn af lykilþáttunum í viðspyrnu ríkisstjórnarinnar er styrking ferðaþjónustunnar og það veldur ákveðnum áhyggjum. Það kann að vera óhófleg bjartsýni eða það skorti ákveðið raunsæi að björgunaraðgerð okkar miði að því að setja áfram eggin í þessa sömu körfu í staðinn fyrir að dreifa þeim víðar, setja eggin víðar. Við vitum ekki hvenær fer að birta til og aðgerðirnar verða að vera búnar þeim sveigjanleika að þær geti aðlagast langvarandi takmörkunum á félagslegum samskiptum. Þetta er alveg ljóst og þetta er það sem er ítrekað bent á í alþjóðasamfélaginu.

The Economist var með leiðaragrein fyrir helgi þar sem er talað um að þegar létt er á þessari félagslegu fjarlægð, „social distancing“, með leyfi forseta — ef ekki er komið þetta svokallaða hjarðónæmi, sama hvort það er vegna þess að nógu margir smituðust og eru orðnir frískir eða hvort við náum að bíða eftir að bóluefni komi, ef maður er ekki búinn að ná hjarðónæminu gæti faraldurinn farið aftur af stað. Það verða sveiflur upp og niður og efnahagsaðgerðirnar verða að geta tekið mið af því og hratt aftur spýtt inn og svo dregið úr eftir því sem hvernig faraldurinn þróast.

Aðgerðirnar sem ríkisstjórnin boðaði á blaðamannafundi sínum um helgina eru tíu talsins. Þær skiptast í þrjá flokka sem nefnast varnir, vernd og viðspyrna. Stuðlað, flott, skýrt. Sumar aðgerðir hafa þegar verið afgreiddar frá Alþingi, m.a. hlutastarfaleiðin sem var afgreidd í góðri samvinnu velferðarnefndar í síðustu viku. Þá höfum við einnig afgreitt frumvarp um laun í sóttkví. Þær breytingar sem lagt er til að lögfesta í þessu frumvarpi sem hluta af aðgerðum ríkisstjórnarinnar eru nokkrar, frestun á staðgreiðslu fyrirtækja og tryggingagjalds. Sjáið, þarna er frestun, við skulum kalla þetta gult, þetta er pása. Svo er heimild ráðherra til að fella niður eða lækka fyrirframgreiðslu á tekjuskatti atvinnureksturs. Það er aftur gefin pása. Svo er sérstakur barnabótaauki. Þar er eitt af þessum fáu dæmum þar sem peningum er beint til einstaklinga, barnafjölskyldna í þessu tilfelli. Við getum kallað það grænt ljós.

Svo er tímabundin niðurfelling tollafgreiðslugjalds vegna skipa og flugvéla þannig að þetta er niðurfelling á tollafgreiðslugjaldinu. Þetta er rautt, það er sett stopp á greiðsluna.

Svo kemur frestun gjalddaga aðflutningsgjalda. Það er frestun, gult þar. Það er heimild til að endurgreiða virðisaukaskatt vegna byggingarframkvæmda og heimild til að endurgreiða virðisaukaskatt vegna heimilisaðstoðar eða umhirðu húsnæðis. Í báðum tilfellum er skatturinn endurgreiddur. Við getum sagt annaðhvort rautt ef það er hægt að stoppa það — en, nei, það er verið að taka skattinn inn en greiða hann síðan til baka.

Tímabundin niðurfelling gistináttaskatts er rauð aðgerð, niðurfelling, skattheimta stoppuð.

Með tímabundinni heimild til úttektar á séreignarsparnaði er einstaklingnum sjálfum heimilt að minnka sín efnahagslegu gæði í framtíðinni en taka þau út núna. Menn mega taka út sína eigin peninga.

Lækkun bankaskatts er flýtt, þarna er lækkun á skatti, stopp. Svo er slökun á útgjaldaþaki sveitarfélaga þannig að þau hafi meira svigrúm til að bregðast við þessu ástandi heima í héraði.

Heimild er fyrir sveitarfélög til að fresta gjalddögum fasteignagjalda þannig að sveitarfélög geta frestað gjalddögum fasteignagjalda, frestað þannig að þau safnast upp og eru greidd seinna.

Heimild er fyrir ríkisábyrgð til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi. Þarna er ríkisábyrgð og þá hægt að stofna kröfu á ríkið. Þetta getur þýtt útgjöld úr ríkissjóði, þýðir það eflaust.

Svo er heimild fyrir Seðlabankann til að veita lánastofnunum stuðning fyrir viðbótarlánafyrirgreiðslu til fyrirtækja sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi. Þarna er lánastofnunum veittur stuðningur frá Seðlabankanum og þær geta lánað þannig að þegar staða fyrirtækjanna er slæm, þá geta þau fengið aukalán sem í rauninni frestar áhrifum ástandsins eitthvað inn í framtíðina.

Hér er um að ræða blandaðan poka af ýmiss konar aðgerðum. Stór hluti aðgerðanna snýr að því að auka lífvænleika fyrirtækja með skattalegum ívilnunum, frestun greiðslna, auknum lánveitingum og ríkisábyrgð. Það er mikilvægt að tryggja áfram rekstur lífvænlegra fyrirtækja, það er lykilatriði enda eru þau stór þáttur í að halda íslenska efnahagnum gangandi.

Sú ríkisstjórn sem sjálf hefur talað mikið fyrir því að þetta sé ríkisstjórn alveg frá hægri til vinstri setur ekki meiri þunga í aðgerðir sem koma einstaklingum beint til hjálpar. Það er tvennt þarna, að fólk megi sjálft taka út séreignarsparnaðinn sinn sem gagnast best eldra fólki, af því að það er búið að safna honum lengur, og svo eru það auknar barnabætur sem gagnast þá barnafjölskyldum, það er oftast ungt fólk sem er orðið þó barnafólk. Ég sé ekki í þessu frumvarpi beinar aðgerðir til annarra. Næstum öll innspýtingin á að fara í gegnum fyrirtækin jafnvel þó að við vitum að fjármunir beint til einstaklinga geta líka verið vítamínsprauta fyrir hagkerfið.

Við sjáum nú þegar að það er mikið ákall eftir auknum efnahagsaðgerðum í þágu einstaklinga. Í fyrradag ályktaði miðstjórn ASÍ um frekari aðgerðir til stuðnings launafólki þar sem m.a. er farið fram á eftirfarandi úrræði fyrir launafólk: Úrræði fyrir launafólk sem ekki getur sótt um vinnu vegna skerts skólastarfs eða barna sinna, hækkun atvinnuleysisbóta, varanlegar styrkingar barnabótakerfisins. Gefin voru út tilmæli til opinberra aðila, sveitarfélaga, leigufélaga og fjármálastofnana, að sýna sanngirni og sveigjanleika varðandi greiðslufrest á meðan óvissan stendur yfir, að ríkið veiti fyrirtækjum ríkisábyrgð á skuldum sínum. Fyrst ríkið ætlar að veita fyrirtækjum ríkisábyrgð á skuldum sínum verði heimilum í greiðsluvanda veitt ríkisábyrgð með sama hætti vegna lána og annarra skuldbindinga. Þetta er mikilvægt. Að heimilum gefist kostur á að fresta greiðslu opinberra gjalda vegna greiðsluerfiðleika með sama hætti og verið er að leyfa fyrirtækjunum, að verðlagning lána verði fryst tímabundið og að framkvæmdum hlutdeildarlána og fjölgun almennra íbúða verði flýtt.

Þetta eru allt efnahagsaðgerðir sem gætu á sama tíma örvað efnahaginn og komið einstaklingum og heimilum til góða.

Við Píratar teljum nauðsynlegt að Alþingi og ríkisstjórn taki mið af þessari ályktun ASÍ í vinnu sinni, bæði við þetta þingmál og við frekari efnahagsaðgerðir. Ungt fólk, fólk í hlutastörfum, eldri borgarar, námsmenn, öryrkjar og atvinnulausir eru allt líka hópar fólks sem hafa ekki fengið skýr svör um stöðu sína og framtíð. Allt eru þetta hópar sem fengu litla aðstoð í síðasta hruni og voru látnir sitja eftir eins og við vitum og margir hafa ekki beðið þess bætur. (Forseti hringir.) Við vinnum þetta í þinginu og ég ítreka aftur að við verðum að hafa meiri aðkomu að málunum ef við ætlum að gera þetta vel og í mestri sátt, grundvallaðri á trausti.